- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Danir léku Þjóðverja sundur og saman

Kampakátir Ólympíumeistarar Danmerkur í handknattleik karla. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Danska landsliðið lék sér að þýska landsliðinu í úrslitaleik handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Lille í Frakklandi í dag. Danir slógu upp sýningu gegn Alfreð Gíslasyni og lærisveinum hans sem fram að leiknum í morgun höfðu leikið afar vel á leikunum. Þeir virtust hinsvegar ekki þola spennuna þegar á hólminn var komið í úrslitaleiknum. Danir unnu með 13 marka mun, 39:25, eftir að hafa ítrekað náð 15 marka forskoti í síðari hálfleik, síðast 39:24.

Danska landsliðið vann þar með allar átta viðureignir sínar á Óympíuleikunum.

Danir fagna þar með öðrum gullverðlaun í handknattleik karla átta árum eftir að þeir unnu fyrst undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar á leikunum í Ríó. Fyrir þremur árum í Japan tapaði danska landsliðið fyrir Frökkum.

Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Danmerkur hefur stýrt landsliðinu til sigurs á Ólympíuleikum og heimsmeistaramótum. Ljósmynd/EPA

Eftir að hafa unnið heimsmeistaratitilinn þrisvar í röð sem landsliðsþjálfari Danmerkur tókst Nikolaj Jacobsen að vinna Ólympíumeistaratitilinn. Hann á hinsvegar Evrópumeistaratitilinn eftir.

Þetta var þriðji úrslitaleikur Þýskalands á Ólympíuleikum eftir að innanhúss handknattleikur varð keppnisgrein á þeim 1972. Á hinn bóginn er þýska landsliðið í fyrsta sinn á verðlaunpalli á stórmóti eftir að Alfreð tók við þjálfun þess fyrir fjórum árum.

Viðureignin í morgun var aðeins jöfn fyrstu níu mínúturnar. Danir voru marki yfir, 6:5, þegar þeir sögðu skilið við þýska liðið. Mistökin hrúguðust upp hjá Þjóðverjum sem alls töpuðu boltanum átta sinnum í fyrri hálfleik. Forskot Dana jókst jafnt og þétt og var mest 11 mörk. Alfreð tók tvisvar leikhlé í fyrri hálfleik til að hressa upp á leikmenn sína. Hvorki gekk né rak.
Í hálfleik var níu marka munur, 21:12.

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands var skiljanlega þungur á brún. Ljósmynd/EPA

Síst lifnaði yfir þýska liðinu í upphafi í síðari hálfleiks. Eftir rúmar sex mínútur tók Alfreð þriðja og síðasta leikhlé sitt tólf mörkum undir, 27:15. Það hreif ekki enda róðurinn orðinn mjög þungur. Hreinlega raunalegt að horfa á upp á þýska landsliðið að þessu sinni.

Danir léku við hvern sinn fingur en þó engin betur en Mathias Gidsel sem var óstöðvandi. Hann skoraði 11 mörk í 13 skotum og varð markakóngur keppninnar.

Áfram var einstefna allt til leiksloka í þessum ójafna úrslitaleik sem verður Dönum vafalaust lengi minnistæður.


Mikkel Hansen og Niklas Landin léku sína síðustu landsleiki fyrir Danmörku að þessu sinni og sennilega fer leikjum Hans Lindberg og Henrik Møllegaard með landsliðinu fækkandi.


Mörk Danmerkur: Mathias Gidsel 11, Magnus Landin 7, Simon Pyltick 6, Rasmus Lauge 5, Niclas Kirkeløkke 3, Lukas Jørgensen 3, Mikkel Hansen 2/2, Emil Jakobsen 1, Magnus Saugstrup 1.
Varin skot: Niklas Landin 10, 29% – Emil Nielsen 3/1, 60%.

Mörk Þýskalands: Juri Knorr 6, Renars Uscins 4, Jannik Kohlbacher 4, Marko Grgic 3/2, Christoph Steinert 2, Lukas Mertenz 2, Julian Köster 2, Lucka Witzke 2, Johannes Golla 1.
Varin skot: Andreas Wolff 5, 14% – David Späth 3, 25%.

ÓL24: handbolti karla, leikir, úrslit, staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -