Danir og Svíar eru öruggir um sæti í átta liða úrslitum handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum eftir að hafa unnið sína leiki í B-riðli í nótt. Auk þess horfir vel fyrir Egyptum að þeir verði einnig á meðal þeirra liða sem eiga sæti í átta liða úrslitum.
Danir lögðu lærisveina Arons Kristjánssonar í Barein með 10 marka mun, 31:21. Heims- og ríkjandi Ólympíumeistarar hafa leikið afar vel í öllum leikjum sínum á leikunum til þessa og virka sigurstranglegir og fullir sjálfstrausts.
Svíar mörðu sigur á Portúgal, 28:27, og hafa fyrir vikið einnig sex stig eftir þrjá leiki í B-riðli.
Japanska landsliðið, undir stjórn Dags Sigurðssonar, tapaði fyrir Egyptum, 33:29, og er án stiga enn sem komið er eins og Barein. Egyptar eru með með fjögur stig og eru tveimur stigum á undan Portúgal og eiga auk þess til góða sigur í innbyrðisleik.
Bareinar áttu ekki möguleika
Eftir tvo svekkjandi eins marks tapleiki þá réðu Bareinar ekkert við Dani í viðureign liðanna sem hófst á miðnætti að íslenskum tíma. Danska liðið var með fimm marka forskot, 12:7, að loknum fyrri hálfleik og vann sannfærandi sigur, 31:21. Emil Jakobsen kom inn í lið Dana fyrir leikinn í stað Lasse Svan. Lasse Andersson meiddist í leiknum og er óvíst hvort hann verði með í næsta leik danska liðsins sem verður gegn Portúgal á föstudaginn.
Johan Plógv Hansen var markahæstur Dana með sex mörk en hann notaði tækifærið vel í fjarveru Svan. Mikkel Hansen var næstur með fimm mörk og Mathias Gidsel skoraði fjögur.
Bareinar leika við Japani á föstudaginn. Mahdi Habiv, Ahmed Almaqabi, Mohamed Ali og Ahmed Fadhul skoruðu þrjú mörk hver og voru markahæstir.
Aftur mörðu Svíar sigur
Portúgalar voru nærri því að jafna metin gegn Svíum. Þeir skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins í eins marks tapi, 29:28, og áttu þar að auki síðustu sókn leiksins. Hún fór forgörðum og sænska liðinu lánaðist að hanga á sigrinum öðru sinni í keppninni. Niclas Ekberg skoraði 29. mark sænska landsliðsins þegar sex mínútur voru til leiksloka.
Staðan var jöfn í hálfleik, 14:14. Portúgalska landsliðið á eftir að mæta Dönum og Japönum.
Ekberg átti stórleik fyrir Svía. Hann skoraði 9 mörk í 10 tilraunum. Albin Lagergren var næstur með sex mörk og Hampus Wanne var með fimm.
Migule Martín, Alexis Borges og André Gomes skoruðu fjögur mörk hver fyrir portúgalska landsliðið og voru markahæstir.
Agarie mætti til leiks
Egyptar voru allan leikinn öflugri en Japanir. Sigur þeirra var þar með nokkuð öruggur. Heimamenn voru fimm mörkum undir í hálfleik, 17:12.
Fyrir japanska liðið var jákvætt að fá leikstjórnandann Yoto Agarie inn í liðið á nýjan leik. Hann meiddist þremur dögum fyrir fyrsta leik og varð þar með af viðureignunum við Dani og Svía og hafði verið sárt saknað enda besti maður japanska landsliðsins á HM í janúar.
Shinnosuke Tokuda var markahæstur hjá Japönum með átta mörk. Agarie og Tatsuki Yoshino skoruðu fjögur mörk hvor. Kenya Kasahara, verðandi leikmaður Harðar á Ísafirði, skoraði ekki mark að þessu sinni.
Ahmed Elahmar var markahæstur hjá Egyptum með átta mörk og Yahia Omar var næstur með sjö.
Úrslit í B-riðli:
Danmörk – Barein 31:21.
Svíþjóð – Portúgal 28:27.
Japan – Egyptaland 29:33.
Staðan:
Næstu leikir föstudaginn 30. júlí:
Kl. 02.00 Barein – Japan.
Kl. 07.15 Svíþjóð – Egyptaland.
Kl. 10.30 Portúgal – Danmörk.