- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Gerard varði Frökkum leiðina í fjórða úrslitaleikinn

Bræðurnir Luka og Nikola Karabatic fagna sigri á Egyptum. Fjær er maður leiksins, Vincent Gerard markvörður. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Frakkar leika til úrslita í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í fjórða sinn í röð á laugardaginn eftir fjögurra marka sigur á Egyptum, 27:23, í undanúrslitum í morgun. Staðan var jöfn í hálfleik, 13:13.


Frábær varnarleikur og magnaður leikur Vincent Gerard var það sem skóp sigur Frakka að þessu sinni. Gerard kom Frökkum inn í leikinn eftir að þeir lentu 5:1 og 7:4 undir snemma leiks. Hann hélt sínu striki leikinn til enda og varði alls 17 skot, var með 44% markvörslu og fylgdi eftir stórbrotnum leik landa síns Amandine Leynaud í marki franska kvennalandsliðsins í gær í undanúrslitaleiknum við Hollendinga.

Á sama tíma náðu markverðir Egypta sér lítt á strik. Karim Hendawy sem lék Þjóðverja grátt í átta liða úrslitum varði aðeins fimm skot.


Sem fyrr segir byrjuðu Egyptar betur en með dyggri aðstoð Gerard þá unnu Frakkar sig í inn leikinn. Þegar á fyrri hálfleik leið skiptust liðin á að vera með eins marks forskot. Jafnt var í hálfleik.


Frakkar voru alltaf skrefinu á undan í síðari hálfleik. Þeir skoruðu fyrsta mark hálfleiksins og hleyptu Egyptum aldrei yfir. Um miðjan síðari hálfleik komust Frakkar í fyrsta sinn þremur mörkum yfir, 21:18, og fjórum mínútum áður en leiktíminn var á enda var forskotið fjögur mörk í fyrsta sinn í leiknum, Frökkum í vil.


Egyptar áttu örlítla von að koma muninum niður í tvö mörk þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Vonin og tækifærin runnu út í sandinn.
Frakkar mæta annað hvort Dönum eða Spánverjum í úrslitaleik.

Ólympíumeistarar Dana leika við Spán klukkan 12 í dag og verður hægt að fylgjast með beinni útsendingu á RÚV.


Dika Mem og Hugo Descat skoruðu fimm mörk hvor fyrir Frakka. Nedim Remili skoraði fjórum sinnum eins og Nikola Karabatic.


Sem fyrr segir var Gerard markvörður maður leiksins. Hann varði 17 skot, þar af tvö vítaköst snemma leiks þegar Frakkar voru að vinna sig inn í leikinn.


Ahmed Elahmar og Yahia Omar skoruðu fimm mörk fyrir Egypta sem leika í fyrsta sinn um verðlaun í handknattleikskeppni Ólympíuleika á laugardaginn. Bronsleikurinn hefst klukkan átta að morgni að íslenskum tíma.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -