- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Klaufskir Argentínumenn héldu Norðmönnum við efnið

Norðmenn gátu fagnað eftir sigur á Argentínu í morgun. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Argentínumenn héldu Norðmönnum vel við efnið í viðureign þjóðanna í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í morgun. Það nægði þó ekki þar sem gæði voru meiri í norska liðinu og það vann með fjögurra marka mun þegar upp var staðið, 27:23.


Noregur hefur þar með fjögur stig eftir tvo leiki og stendur bærilega að vígi fyrir framhaldið í keppninni en tvær umferðir eru eftir og veitir ekki af þar sem framundan eru leikir við Þýskaland og Frakklandi í tveimur síðustu umferðum A-riðils á föstudag og á sunnudaginn.


Argentína er án stiga og mætir Brasilíu á föstudaginn og Spánverjum á sunnudag.


Norðmenn byrjuðu leikinn af krafti og komust í 9:4 gegn Argentínu í morgun. Upp úr því kom góður kafli hjá argentínska liðinu. Það skoraði fimm mörk í röð og jafnaði metin, 9:9. Norska liðinu lánaðist að vera marki yfir í hálfleik, 13:12.

Stórleikur Maciel

Norðmenn voru sterkari í síðari hálfleik en Argentínumenn með Diego Simone í aðalhlutverki voru aldrei langt undan. Klaufaskapur eða á tíðum óvandaður leikur argentínska liðsins kom í veg fyrir að það velgdi Norðmönnum hressilega undir uggum en vissulega voru möguleikar fyrir þá í stöðunni sem þeir spiluðu á tíðum illa úr í sókninni. Markvörðurinn Carlos Maciel átti til að mynda stórleik í marki Argentínu. Hann varði 15 skot og var með 41% hlutfallsmarkvörslu meðan markverðir norska liðsins virtust miður sín.


Sander Sagosen var markahæstur Norðmanna með sjö mörk en skotnýting hans var ekki góð að þessu sinni. Magnus Jöndal nýtur þess að leika sína síðustu leiki á ferlinum. Hann átti enn einn stórleikinn og skoraði sex mörk. Harald Reinkind var næstur með fimm mörk.


Diego Simone og Ignacuio Pizarro voru markahæstir í argentínska liðinu með fimm mörk hvor.

Stórleikur í hádeginu

Framundan eru tveir leikir í A-riðli. Brasilía og Spánn eigast við klukkan 10.30 og klukkan 12.30 verður stórleikur þegar evrópsku risarnir, Frakkland og Þýskaland mætast en þýska liðið er sem kunnugt er undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -