„Þessi úrslit eru mjög svekkjandi. Við vorum betri aðilinn en klúðruðum mörgum góðum færum í lok seinni hálfleiks,“ sagði Aron Kristjánsson þjálfari Barein við handbolta.is í dag eftir annað naumt tap Bareina í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Tókýó. Að þessu sinni 26:25 fyrir Portúgal.
Barein hafði verið með yfirhöndina í leiknum frá því að staðan var 7:6 þegar Portúgölum tókst að komast yfir mínútu fyrir leikslok eftir hraðaupphlaup verandi manni færri. Bareinar fengu vítakast þegar 20 sekúndur voru eftir af leiktímanum og áttu þar með kost á að krækja í annað stigið. Boltinn fór í þverslá úr vítakastinu. Eitt þriggja vítakasta sem fóru forgörðum hjá Barein í leiknum.
„Mér fannst menn vilja of mikið á lokakaflanum og gerðum við okkur seka um bæði varnarmistök og einnig sóknarlega, fórum illa með góð færi og áttum nokkrar slakar sendingar. Einnig klúðrum við til dæmis þremur vitum í leiknum meðan Portúgal skorar úr öllum sínum. Allt svona hefur mikið að segja í jöfnum leik,“ sagði Aron Kristjánsson sem teflir sveit sinni fram gegn heimsmeisturum Dana í næstu umferð. Sú viðureign hefst á miðnætti aðra nótt.
Bareinbúar er án stiga eftir tvo leiki en þeir töpuðu einnig afar naumlega fyrir Svíum á laugardaginn, 32:31. Þá eins og nú brást mönnum bogalistin undir lokin þegar möguleiki gafst á að bjarga öðru stiginu fyrir horn.