- Auglýsing -

Öll á völlinn!

Mynd/Baldur Þorgilsson
 • Í kvöld hefur Valur þátttöku í riðlakeppni Evrópudeildar karla í handknattleik. Vafalítið er um að ræða dýrasta og metnaðarfyllsta verkefni sem íslenskt félagslið hefur ráðist í um langt árabil. Eða eins og sagt var á þessum vettvangi í sumar; það stærsta frá því að karlalið Hauka var síðast með í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu keppnistímabilið 2008/2009 og lék í skugga hruns íslenska fjármálakerfisins undir ómi blessunarorða þáverandi forsætisráðherra.
 • Fyrsti leikur Vals verður gegn ungverska liðinu FTC í Origohöllinni í kvöld og hefst klukkan 18.45.
 • Fyrir dyrum standa hjá Val tíu leikir heima og að heiman gegn sterkum félagsliðum frá Evrópu. Þátttaka Vals í keppninni er veisla fyrir áhugafólk um handknattleik. Umgjörð leikjanna verður eins og best verður á kosið hér á landi undir ströngum kröfum Handknattleikssambands Evrópu, EHF. Kröfurnar eru í sumum tilfellum jafnvel meiri en gerðar eru til landsleikja. Tugir sjálfboðaliða verða að störfum.


 • Leikirnir eru sannarlega mælistika á hvar íslenskur handknattleik stendur um þessar mundir. Er inneign fyrir orðum um þær miklu framfarir sem þykja hafa orðið á deildarkeppninni hér á landi á undanförum árum? Nú ganga Íslandsmeistararnir og besta lið landsins um þessar mundir fram á völl skylmingameistara Evrópu og láta reyna á kapp sitt og hreysti.
 • Öflugur stuðningur áhorfenda skiptir svo sannarlega máli, það er gömul saga og ný. Það er ekki síður gaman að mæta á stórleiki í handbolta hér á landi en í útlöndum. Þangað streymir íslenskt handknattleiksáhugafólk árlega í þúsundavís á kappleiki.
 • Óvíst er hvort þátttaka í íslensks félagsliðs verði árlegur viðburður héðan í frá. Frá og með næsta keppnistímabili verður hert að þátttöku minni félagsliða í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þrátt fyrir fjölgun þátttökuliða úr 24 í 32. Ýmsu í inntökuskilyrðum verður breytt sem gerir m.a. Íslandsmeisturunum erfiðara um vik að taka þátt. Takist vel til hjá Valsmönnum innan vallar getur það orðið vatn á myllu Íslands að eiga greiðari leið á keppninni á næstu árum verði vilji og þor fyrir hendi.

 • Kollótt áhorfendastúka verður vart til þess fallin til þess að auka líkurnar á EHF telji þess virði að Ísland og aðrar smærri handknattleiksþjóðir eigi rétt á sæti í einni af stórkeppni sinni. Heimaleikir Vals verða að vissu leyti andlit Íslands til Evrópu.
 • Þátttaka Vals verður ekki aðeins mælistika á stöðu besta félagsliðs Íslands um þessar mundir í samanburði við nokkur af fremstu liðum Evrópu. Hún einnig prófraun á hvort áhugafólk hér á landi er tilbúið að standa við bakið á íslenskum félagsliðum sem hafa metnað og vilja til þess að taka þátt í Evrópukeppni, hvort sem um er að ræða einn eða a.m.k. fimm heimaleiki.
 • Öll á völlinn. Góða skemmtun!

  Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is

Tryggðu þér aðgöngumiða á viðureign Vals og FTC í kvöld. Miðasala á Tix.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -