„Það er mjög þétt og spennandi dagskrá framundan í haust. Ég hef nánast engin önnur plön en þau sem taka mið af handbolta fram undir jól. Það aldrei lognmolla enda nóg að gera og mjög gaman,“ segir Þórey Rósa Stefánsdóttir ein leikreyndasti leikmaður kvennlandsliðsins í handknattleik. Hún leikur sinn 138. landsleik í dag gegn Póllandi á æfingamóti í Cheb í Tékklandi.
Ekki nóg með að leikurinn í dag verður sá 138. á landsliðsferli Þóreyjar Rósu heldur vantar henni aðeins eitt mark til þess að rjúfa 400 marka múrinn fyrir landsliðið. „Það er eins gott að þær sendi mér boltann,“ segir Þórey Rósa í gamansömum tón um markið sem vonandi er innan seilingar.
Eins og Þórey Rósa segir eru miklar annir hjá leikmönnum landsliðsins næstu vikur og mánuði allt fram yfir Evrópumótið í handknattleik sem fer fram í nóvember og desember. Þórey Rósa ætlar sér að vera með landsliðinu á EM. Auk leikjanna í Tékklandi tekur landsliðið á móti pólska landsliðinu hér heima eftir mánuð og síðan mætir það landsliði Sviss ytra rétt fyrir EM. Fyrsti leikur á EM verður síðan við hollenska landsliðið 29. nóvember. Eftir það taka við leikir gegn Úkraínu og Þýskalandi í riðlakeppni EM.
„Maður er í þessu til þess til að spila leiki og ná sem lengst. Við unnum okkur inn rétt til að keppa á EM og erum hrikalega spenntar,“ segir Þórey Rósa.
Nánar er rætt við Þóreyju Rósu á meðfylgjandi myndskeiði sem er efst í greininni.
A-landslið kvenna – fréttasíða.
Tveir mánuðir í EM – landsliðið er farið til Tékklands
Eftir því sem næst verður komist er dagskrá íslenska landsliðinu á mótinu í Cheb þessi:
26. september: Tékkland - Ísland, kl. 17.
27. september: Ísland - Házená Kynžvart, kl. 15.
28. september: Ísland - Pólland, kl. 11.