Allir leikmenn þýska meistaraliðsins HB Ludwigsburg eru lausir undan samningum við félagið. Þeim er frjálst að fara þegar í stað enda er ljóst að félagið getur ekki staðið við einn einasta samning. Forsvarsmenn félagsins sögðu frá þessu í dag en nærri tvær vikur eru liðnar síðan rekstrarfélag HB Ludwigsburg óskaði eftir gjaldþrotaskiptum. Ljóst er að lífróður stjórnenda HB Ludwigsburg síðustu vikur hefur engan árangur borið.
Þótt skammt sé í að næsta tímabil hefjist má telja víst að öflugustu leikmenn HB Ludwigsburg komist að hjá öðrum liðum á næstu vikum eða mánuðum. Eins og handbolti.is sagði frá um helgina er a.m.k. þrjú lið með sænska markvörðinn Johönnu Bundsen undir smásjá.
Ljóst er lið HB Ludwigsburg verður ekki svipur hjá sjón á næstu leiktíð auk þess sem líklegt er að það byrji með allt að átta stig í mínus ef það hefur yfir höfuð keppni í þýsku 1. deildinni.
Forsvarsmenn félagsins ala enn þá von í brjósti að geta haldið úti liði á næstu leiktíð þótt það verði ekki svipur hjá sjón sé tekið mið af síðustu árum.
HB Ludwigsburg hefur verið öflugasta kvennalið Þýskalands undanfarin ár og m.a. unnið fjóra meistaratitla í röð og bikarkeppnina í fjögur skipti á síðustu árum.
Sögulok í Meistaradeildinni?
Hætt er við að tíðindi dagsins verði til þess að Handknattleikssamband Evrópu vísi HB Ludwigsburg úr keppni í Meistaradeildinni. EHF óskaði á dögunum eftir gögnum frá félaginu og þýska handknattleikssambandinu varðandi fjárhagsstöðuna og hvernig liðið hyggðist standa við skuldbindingar sínar sem snúa að þátttöku í Meistaradeild Evrópu.
Hætt er við að tíðindi dagsins auki ekki líkurnar á að HB Ludwigsburg verði á meðal þátttökuliða Meistaradeildar á komandi leiktíð sem hefst 5. september.