- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ómar Ingi tók upp þráðinn þar sem frá var horfið

Ómar Ingi Magnússon, markakóngur þýsku 1. deildarinnar 2021. Mynd/Magdeburg
- Auglýsing -

Ómar Ingi Magnússon, markakóngur þýsku 1. deildarinnar á síðasta keppnistímabili, tók í kvöld upp þráðinn þar sem frá var horfið í vor. Hann fór á kostum þegar Magdeburg vann Stuttgart, 33:29, á heimavelli í kvöld í fyrstu umferð deildarinnar.


Ómar Ingi var markahæsti leikmaður vallarins með níu mörk auk þess sem hann átti sex stoðsendingar. Þrjú marka sinna skoraði hann úr vítaköstum. Adam Lönn var markahæstur hjá Stuttgart með sjö mörk en liðið lék án Viggós Kristjánssonar eins og kom fram í frétt handbolta.is í kvöld. Max Häfner er einnig fjarri góðu gamni vegna meiðsla.


Gísli Þorgeir Kristjánsson lék með Magdeburg í fyrsta sinn í deildarleik frá 21. mars þegar hann fór úr axlarlið. Magdeburg var marki yfir í hálfleik, 16:15, að viðstöddum 3.269 áhorfendum í GETEC Arena.


Andri Már Rúnarsson, sem gekk til liðs við Stuttgart fyrir um mánuði, var í leikmannahópi liðsins í kvöld en skoraði ekki fremur en Gísli Þorgeir.


Ýmir Örn Gíslason var aðsópsmikill í vörn Rhein-Neckar Löwen þegar liðið vann Hannover-Burgdorf á útivelli, 28:24. Hann skoraði ekki mark.


Arnór Þór Gunnarsson, fyrirliði landsliðsins, skoraði þrjú mörk fyrir Bergischer HC sem vann nýliða TuS N-Lübbecke, 24:20, á útivelli. Ekkert markanna var úr vítakasti.


Füchse Berlin – Wetzlar 29:24.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -