Ekkert verður af því að karlalandsliðið í handknattleik leiki heimaleik sinn í undankeppni EM við Ísraelsmenn 12. október í Laugardalshöll þótt vonir standi til að viðgerðum á Höllinni verði lokið í tíma, nærri tveimur árum eftir að heitt vatn lak linnulaust klukkutímum saman um gólf hallarinnar með tilheyrandi afleiðingum.
RÚV segir frá því á vef sínum að neðri áhorfendastúka Hallarinnar sé ónýt. Ekki er von á nýrri fyrr en í janúar og að hún verði uppsett og tilbúin til notkunnar í febrúar.
Til stendur að karlalandsliðið í körfuknattleik leiki í Höllinni í nóvember þrátt fyrir að ónýtu stúkuna. Í stað hennar verða lausar áhorfendastúkur sem voru sitt hvorum megin við heiðurstúkuna fluttar yfir. Er þetta vel mögulegt þar sem körfuknattleiksvöllur er aðeins minni er handknattleiksvöllur. Auk þess er ekki sömu kröfur gerðar til áhorfendastæða í alþjóðlegum kappleikjum í körfuknattleik og í handknattleik eftir því fram kemur á RÚV.
Áður en fregnir bárust af ónýtu stúkunni hafði HSÍ tilkynnt að tveir leikir milli kvennalandsliða Íslands og Ísraels í forkeppni HM snemma í nóvember fari báðir fram á Ásvöllum í Hafnarfirði eins og undanfarnir heimaleikir A-landsliðanna.
Góðar móttökur en tekjutap
„Okkur líður ekkert illa í Hafnarfirði. Þeir hafa tekið vel á móti okkur og vilja allt fyrir okkur að gera. En það er bagalegt að við getum ekki farið í Höllina. Þetta hefur áhrif á miðasöluna þar sem Ásvellir taka ekki á móti jafn miklu fólki. Þannig þegar við erum að selja á leikinn verðum við fyrir tjóni þar,“ segir Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ í samtali við RÚV.
Eins og kom fram í neðangreindri frétt handbolta.is á dögunum þá ríkti ekki bjartsýni um að karlalandsliðið í handknattleik léki Laugardalshöll á þessu ári. Þá var ekki fyrir hendi vitneskja um hina ónýtu stúku.