„Ég er hálf orðlaus og vonsvikinn,“ sagði Grétar Áki Andersen þjálfari ÍR í samtali við handbolta.is eftir tap liðsins fyrir Fram, 32:30, í 4. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Lambhagahöllinni í dag.
„Tilfinningin fyrir leiknum var góð en því miður var byrjunin slæm. Við vorum með að minnsta kosti 20 tapaða bolta sem er alltof mikið til þess að vinna Fram,“ sagði Grétar en lið hans fór illa með margar sóknir og góð færi. Nær allan síðari hálfleik var forskot Fram fjögur til sjö mörk. Á lokamínútunum breytti ÍR yfir í 3/3 vörn og tókst að minnka muninn en það gaf lítið þegar upp var staðið.
„Það var neyðarúrræði í lokin að breyta um vörn til þess að komast inn í leikinn og tókst svo sem ágætlega en bilið var of mikið til þess að brúa,“ sagði Grétar Áki sem ætlar að leggjast yfir leikinn með leikmönnum sínum áður en þeir mæta KA/Þór og stefna ótrauður á sigur gegn KA/Þór á heimavelli næsta miðvikudag.
Lengra viðtal við Grétar Áka er að finna í myndskeiði hér fyrir neðan.