Portúgalska meistaraliðið sem Orri Freyr Þorkelsson leikur með vann í kvöld pólsku meistarana Wisla Plock, 34:29, í Lissabon í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Þetta var fyrsti leikur Sporting í deild þeirra bestu í Evrópu í fimm ár.
Orri Freyr stóð sig vel í leiknum og skoraði þrjú mörk í þremur skotum. Hann tók ennfremur þátt í varnarleiknum og var m.a. einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Viktor Gísli Hallgrímsson stóð hluta leiksins í marki Wisla Plock en náði sér ekki á strik og varði 4 skot, 20%.
Costa skoraði 10 mörk
Sporting var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. M.a. var þriggja marka munur að loknum fyrri hálfleik, 17:14.
Martim Costa skoraði 10 mörk fyrir Sporting og var markahæstur. Michal Daszek var markahæstur hjá Wisla með 10 mörk.
Kolstad sló ekki Barcelona út af laginu
Íslendingaliðið og norska meistaraliðið Kolstad tapaði á heimavelli fyrir Evrópumeisturum Barcelona, 35:30, í Meistaradeildinni í kvöld að viðstöddum 8.000 áhorfendum í Trondheim Spektrum. Barcelona réði lögum og lofum strax í fyrri hálfleik og hafði sjö marka forskot að honum loknum, 20:13.
Sveinn atkvæðamestur
Sveinn Jóhannsson var atkvæðamestur Íslendinganna með þrjú mörk auk þess að vera einu sinni vikið af leikvelli. Benedikt Gunnar Óskarsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson skoruðu eitt mark hvor. Magnus Søndenå og Erlend Johansen skoruðu sex mörk hvor fyrir Kolstad og voru markahæstir.
Dika Mem skoraði sjö sinnum fyrir Barcelona og Melvyn Richardson í fimm skipti. Emil Nielsen varði 12 skot, 35%.
Benedikt Gunnar og Sveinn voru að taka þátt í leik í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn á ferlinum.
11 mörk í 11 skotum
Hinn ungi danski landsliðsmaður Thomas Arnoldsen átti stórleik með 11 mörk í 11 skotum þegar Aalborg Håndbold vann Nantes, 38:31, í Álaborg. Danska meistaraliðið sem lék til úrslita í Meistaradeildinni í vor, var marki undir í hálfleik, 17:16.
Norski landsliðsmaðurinn Sebastian Barthold skoraði sex mörk fyrir Aalborg og var næst markahæstur.
Valero Rivera var markahæstur hjá Nantes, eins og stundum áður, með sjö mörk.
Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu leikinn í Álaborg.
Syprzak átti stórleik
Pólverjinn Kamil Syprzak fór á kostum hjá PSG með 11 mörk í 13 skotum í naumum sigri á Eurofarm Pelister frá Norður Makedóníu, 31:29, í París. Luc Steins og Mathieu Grebille voru næstir með fimm mörk hvor. Filip Kuzmanovski skoraði átta mörk fyrir meistarana frá Norður Makedóníu.
Fjórir leikir fara fram í Meistaradeildinni á morgun:
Kl. 16.45: Dinamo Búkarest – Fredericia - Haukur Þrastarson leikur með Dinamo.
- Arnór Viðarsson og Einar Þorsteinn Ólafsson leika með Fredericia auk þess sem Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari liðsins.
Kl. 16.45: Szeged – Magdeburg - Janus Daði Smárason leikur með Pick Szeged og mætir sínum fyrrverandi samherjum.
- Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon leika með Magdeburg.
Kl. 18.45: Füchse Berlin – Veszprém- Bjarki Már Elísson leikur með Veszprém.
Kl. 18.45: Kielce – Zagreb.