- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Örugglega rétt skref að fara aftur til Noregs

Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það er gaman að vera kominn í landsliðið á nýjan leik eftir að hafa misst af leikjunum í vor vegna meiðsla. Hópurinn er geggjaður og verður bara betri og betri með hverjum leiknum,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson sem hefur náð góðri heilsu og gat þar af leiðandi gefið kost á sér í íslenska landsliðið í handknattleik sem mætir Ísrael og Eistlandi í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik i vikunni.


Fyrri leikurinn við Ísraelsmenn verður á Ásvöllum annað kvöld, miðvikudag, og hefst klukkan 19.45. Uppselt er á leikinn. Viðureignin við Eistlendinga verður í Tallin á laugardaginn.

Að taka upp þráðinn

„Ég er spenntur fyrir þessum leikjum. Markmiðið er að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í síðasta verkefni, með sigrum. Fara vel af stað í undankeppninni,“ sagði Sigvaldi Björn sem er loksins orðinn góður eftir að hafa átti í hásinar meiðslum í nærri því eitt ár.

Að mestu orðinn góður

„Ég er orðinn að mestu góður. Finn aðeins fyrir stífleika þegar álagið er mikið en það á að hverfa með tímanum,“ sagði Sigvaldi sem var frá keppni nær allt síðasta keppnistímabil vegna meiðsla í hásin. Hann gat leikið með íslenska landsliðinu á EM í janúar, og jafnvel of mikið að einhverra mati. Voru það nánast einu leikirnir á keppnistímabilinu.

Er mjög sáttur

Sigvaldi Björn flutti til Þrándheims í sumar eftir tveggja ára veru hjá pólska meistaraliðin Kielce. Núna er hann liðsmaður Kolstad eins og Janus Daði Smárason. Sigvaldi segir að sér og fjölskyldunni líði vel í Noregi.

„Það var örugglega rétt skref hjá mér að fara aftur til Noregs. Næstu ár eiga eftir að verða mjög góð við að leggja hönd á plóginn við að byggja upp nýtt lið hjá Kolstad. Ég er mjög sáttur,“ sagði Sigvaldi. Forráðamenn Kolstad tjalda ekki til einnar nætur. Þeir eru stórhuga og ætla sér á næstu árum að byggja upp stórlið í evrópskum handknattleik sem standi liðum eins og Veszprém, Kiel, PSG og Barcelona fyllilega á sporði.

Sigvaldi Björn er 27 ára gamall leikmaður Kolstad frá Þrándheimi í Noregi. Hann gekk til liðs við félagið í sumar eftir tveggja ára veru hjá Kielce í Póllandi.
Sigvaldi Björn flutti með fjölskyldu sinni til Danmerkur 12 ára gamall en varð eftir ytra þegar fjölskyldan fór aftur til Íslands nokkrum árum síðar. Hann lék með Vejle, Bjerringbro/Silkeborg en var síðan hjá Århus Håndbold um þriggja ára skeið áður en hann fluttist til Elverum sumarið 2018. Frá Elverum fór Sigvaldi Björn til Kielce.
Sigvaldi Björn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn norska landsliðinu 8. júní 2017 og var með á sínu fyrsta stórmóti á HM í Þýskalandi og Danmörku í ársbyrjun 2019. Hann er eini leikmaður íslenska landsliðsins sem aldrei hefur leikið með meistaraflokksliði á Íslandi. A-landsleikir Sigvalda Björns eru 47 og mörkin 115.

Vonbrigði að heltast úr lestinni

Kolstad er sem stendur efst í norsku úrvalsdeildinni, taplaust eftir fimm umferðir. Liðið féll naumlega út í undankeppni Evrópudeildarinnar með tapi í vítakeppni fyrir Bidasoa.

„Auðvitað var svekkjandi að missa af sæti í Evrópudeildinni. Á móti kemur að við fáum betri tíma til þess að spila okkur saman sem lið áður en fleiri leikmenn bætast í hópinn á næsta sumri. Einbeitingin í vetur verður á að æfa vel og vinna norsku úrvalsdeildina og eiga þar með möguleika á að komast í Meistaradeildina keppnistímabilið 2023/2024,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -