Óskar Bjarni Óskarsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins í handknattleik. Hann tekur við af Ágústi Þór Jóhannssyni sem starfað hefur með Arnari Péturssyni landsliðsþjálfara undanfarin ár en lét af störfum í vor.
Áfram með A-landsliði karla
Óskar Bjarni er vel kunnugur landsliðsumhverfinu, en hann hefur um árabil starfað innan þjálfarateyma HSÍ, bæði hjá karla- og kvennalandsliðum. Undanfarin ár hefur hann verið hluti af teymi A-landsliðs karla og mun áfram sinna því starfi samhliða nýrri ábyrgð með kvennalandsliðinu.
Víðtæk reynsla
Hann býr yfir víðtækri reynslu í starfi aðstoðarlandsliðsþjálfara, þar sem hann hefur áður þjálfað á báðum vígstöðvum, bæði með karla- og kvennalandsliðum Íslands. Óskar Bjarni hefur þjálfað hjá Val um langt árabil og m.a. leitt karlalið félagsins margoft til sigurs á Íslandsmótinu og í bikarkeppninni. Einnig varð Valur fyrst íslenskra liða Evrópubikarmeistari undir stjórn Óskars Bjarna vorið 2024.
Eftir að Óskar Bjarni hætti þjálfun karlaliðs Vals í vor færði hann sig yfir í þjálfun barna- og unglingaflokka hjá Hlíðarendaliðinu.
Fyrsti leikur í Danmörku
Fyrsta verkefni Óskars með Arnari Péturssyni, landsliðsþjálfara kvenna, verður í landsliðsviku í september. Þá kemur liðið saman til æfinga og leikur vináttulandsleik gegn Danmörku í Arena Nord í Frederikshavn, laugardaginn 20. september.
Stærsta verkefni kvennalandsliðsins á komandi vetri verður þátttaka á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og Hollandi í lok nóvember og í byrjun desember. Einnig standa fyrir dyrum í október viðureignir við Færeyinga og Svartfellinga í undankeppni Evrópumótsins 2026.