- Auglýsing -
- Auglýsing -

Óskar markahæstur – Birta lék vel en skoraði ekki

Mynd/EPA

Ekkert lát er á sigurgöngu Drammen í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla. Í gær vann Drammen liðsmenn Bækkelaget örugglega, 22:18, á heimavelli í þriðju umferð deildarinnar. Óskar Ólafsson var að vanda atkvæðamikill í liði Drammen. Hann skoraði fimm mörk og var markahæstur. Honum brást bogalistinn í þremur markskotum.

Drammen hefur þar með fullt hús stiga eftir leikina þrjá sem að baki eru í deildinni. Elverum hefur sama stigafjölda og er einnig taplaust. Arendal er þriðja taplausa liðið en það hefur aðeins leikið tvisvar sinnum.

Birta Rún Grétarsdóttir lék með Oppsal þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir Byåsen, 26:21. Henni tókst ekki að skora í leiknum. Birta Rún hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir góða frammistöðu með Oppsal á leiktíðinni en hún er eina íslenska konan sem leikur í efstu deild í Noregi um þessar mundir.

Birta Rún lék með HK áður en hún hélt til Noregs í íþróttaháskóla fyrir þremur árum. Hún virðist hafa tekið talsverðum framförum ytra eftir því sem heimildarmaður handbolta.is í Noregi upplýsti. Birta Rún lék með Kiongsvinger í tvö ár en var í fyrra hjá Førde undir stjórn Hilmars Guðlaugssonar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -