- Auglýsing -
- Auglýsing -

Óþarflega stórt tap hjá Gróttu

Valsmenn leika öðru sinni við Lemgo ytra í kvöld. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Valur vann þriðja leikinn í röð í Olísdeild karla í dag er liðið lagði Gróttu með 12 marka mun, 36:24, í Origohöllinni á Hlíðarenda. Valsmenn voru með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Valur er þar með í þriðja til fjórða sæti deildarinnar ásamt ÍBV með 23 stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Gróttumenn sigla lygnan sjó í 10. sæti vegna þess að Þórsliðið sem er í 11. sætinu virðist ekki líklegt til að vinna sér inn fleiri stig.


Valsmenn voru mun sterkari í Origohöllinni í dag. Þeir voru alltaf með gott forskot í fyrri hálfleik í hröðum leik þar sem alls voru skoruð 34 mörk í fyrri hálfleik, þar af gerðu Valsmenn 19 þeirra.


Gróttumenn byrjuðu með talsverðum látum í síðari hálfleik og náðu að minnka muninn í þrjú mörk, 21:18. Nær komust þeir ekki. Vörn Valsmanna var öflug og sjö manna sóknarleikur Gróttu gekk lítt. Síðasta stundarfjórðunginn hallaði jafnt og þétt undan fæti hjá Gróttumönnum sem svo að segja höfðu nánast lagt árar í bát síðustu mínúturnar. Þar af leiðandi varð tapið stærra en ástæða var til. Tólf marka munur gefur ekki góða mynd af því hvernig leikurinn þróaðist lengst af.


Skarð var fyrir skildi hjá Gróttu að markvörðurinn Stefán Huldar Stefánsson lék ekki með. Hann hefði svo sem ekki hjálpað mikið upp á sóknarleikinn en vissulega getað hjálpað til við að verjast sókndjörfum Valsmönnum sem léku á tíðum við hvern sinn fingur.

Sérdeilis ánægjulegt að sjá að Agnar Smári Jónsson er jafnt og þétt að sækja í sig veðrið. Magnús Óli Magnússon lék sinn annan leik eftir meiðsli og þarf lengri tíma til að komast í betri leikæfingu. Markvörðurinn Martin Nágy er einnig að færast í aukana.


Mörk Vals: Agnar Smári Jónsson 8, Magnús Óli Magnússo 5, Anton Rúnarsson 5/2, Tumi Steinn Rúnarsson 4, Finnur Ingi Stefánsson 4, Þorgils Jón Svölu-Baldursson 3, Alexander Örn Júlíusson 2, Stiven Tobar Valencia 1, Einar Þorsteinn Ólafsson 1, Vignir Stefánsson 1, Þorgeir Bjarki Daviðsson 1.
Varin skot: Martin Nágy 15, 39,5%.
Mörk Gróttu: Daníel Örn Griffin 7, Birgir Steinn Jónsson 4, Andri Þór Helgason 3/3, Satoru Goto 2, Gunnar Dan Hlynsson 2, Hannes Grimm 2, Ágúst Emil Grétarsson 1, Ólafur Brim Stefánsson 1, Jakob Ingi Stefánsson 1, Lúðvík Thorberg Bergmann Arnkelsson 1.
Varin skot: Daníel Andri Valtýsson 8, 20% – Ísak Arnar Kolbeinsson 0.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -