- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ótrúleg sveifla í Austurbergi og Stjarnan slapp fyrir horn

Tandri Már Konráðsson, fyrirliði Stjörnunnar. Mynd/Stjarnan
- Auglýsing -

Óhætt er að segja að Stjörnumenn hafi sloppið fyrir horn úr heimsókn sinni til ÍR-inga í íþróttahúsið í Austurbergi í kvöld þar sem liðin leiddu saman hesta sína í Olísdeild karla í handknattleik. Eftir hörmungar upphafskafla leiksins þá tókst Stjörnunni að standa uppi sem sigurvegari í lokin, 27:24, í fremur stórkallalegum baráttuleik. Staðan var jöfn í hálfleik, 11:11.


Stjarnan lenti sjö mörkum undir, 10:3, eftir rúmlega stundarfjórðungsleik og allt stefndi í afhroð hjá Garðabæjarliðinu. Þá tók Patrekur Jóhannesson, þjálfari leikhlé og fyrirskipaði sjö manna sóknarleik. Það var eins og við manninn mælt. ÍR-ingum féll allur ketill í eld og áður en hálfleikurinn var út hafði Stjarnan skorað átta mörk gegn aðeins einu. Stjörnumenn vörpuðu öndinni væntanlega léttar þegar þeir gengu til búningsklefa í hálfleik eftir að hafa náð að spyrna sér frá botninum.

Í síðari hálfleik var baráttan sett á oddinn hjá báðum liðum. Úr varð nokkuð klossalegur handboltaleikur þar sem bæði lið höfðu aðeins eitt markmið, þ.e. að ná í stigin tvö og virtist nokk sama hvort það væri gert með fallegum handboltaleik. Jafnt var á nánast öllum tölum þótt frumkvæðið hafi heldur verið hjá Stjörnuliðinu en ÍR-ingum.

Úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu tveimur mínútunum þegar mikilvæg atriði í leiknum féllu með Stjörnumönnum auk þess sem ÍR-ingar náðu ekki að nýta sín allra síðustu tækifæri. Stjarnan skoraði tvö síðustu mörkin og vann með þriggja marka mun, 27:24.

Stjarnan er í áttunda sæti með fimm stig að loknum sex leikjum. Lánlitlir ÍR-ingar eru sem fyrr á botninum án stiga. Stöðuna í deildinni er nánar hægt að skoða hér.

Mörk ÍR: Gunnar Valdimar Johnsen 5, Sveinn Brynjar Agnarsson 5, Andri Heimir Friðriksson 4, Viktor Sigurðsson 4, Eggert Sveinn Jóhannsson 2, Úlfur Gunnar Kjartansson 1, Bjarki Steinn Þórisson 1, Björgvin Páll Rúnarsson 1, Ólafur Rafn Gíslason 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 12 skot, 30,8%.
Mörk Stjörnunnar: Brynjar Hólm Grétarsson 6, Leó Snær Pétursson 6, Dagur Gautason 4, Björgvin Þór Hólmgeirsson 3, Ólafur Bjarki Ragnarsson 3, Sverrir Eyjólfsson 2, Tandri Már Konráðsson 2, Pétur Árni Hauksson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 9 skot, 31%. Sigurður Dan Óskarsson 0.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -