Haukur Þrastarson landsliðsmaður í handknatteik og leikmaður Kielce í Póllandi meiddist í hné undir lok fyrri hálfleiks í viðureign Łomża Industria Kielce og Pick Szeged í Meistaradeild karla sem stendur yfir í Ungverjaland. Óstaðfestar fregnir herma að meiðslin geti verið mjög alvarleg, hugsanlega slitið krossband. Sennilega skýrist það þó ekki fyrr en á morgun, í fyrsta lagi.
Haukur hefur leikið frábærlega með Kielce síðustu vikurnar og fengið stærra hlutverk en áður í leikjum liðsins í Meistaradeildinni. Virtist hann hafa náð fyrri styrk og jafnvel gott betur eftir að hafa slitið krossband í október 2020 í leik Kielce og Elverum.
Hér má sjá viðbrögð Łomża Industria Kielce í færslu á Twitter fyrir nokkrum mínútum. Þjálfari liðsins, Talant Dujshebaev er miður sín.
Haki 💔 pic.twitter.com/TohNNOsqM8
— Łomża Industria Kielce (@kielcehandball) December 7, 2022
Séu meiðsli hans alvarleg, eins og óttast er, þarf vart að fjölyrða um hversu mikið áfall það er fyrir feril Hauks.