Sterkur grunur er um að Tandri Már Konráðsson leikmaður Stjörnunnar hafi slitið hásin í viðureign Evrópuleiks Stjörnunnar og CS Minaur Baia Mare í forkeppni Evrópudeildarinnar í Rúmeníu í gær. Þetta hefur handbolti.is samkvæmt heimildum.
Eftir því sem næst verður komist meiddist Tandri Már snemma í leiknum, í stöðunni, 4:1, fyrir Stjörnuna. Hann komst strax undir hendur læknis á vegum CS Minaur Baia Mare sem aðstoðaði Tandra eftir fremsta megni. Þegar heim til Íslands verður komið bíður Tandra Más ítarlega skoðun hjá lækni. Stjörnuliðið er væntanlegt til landsins í dag, eftir tvær flugferðir auk rútuferðar frá Baia Mare í norðurhluta Rúmeníu til Búdapest í Ungverjalandi.
Eins og nærri má geta er um gríðarlegt áfall að ræða, bæði fyrir Tandra Má og lið Stjörnunar. Hann er kjölfesta liðsins í vörninni auk þess að vera fyrirliði og leiðtogi utan vallar sem innan.
Stjarnan og CS Minaur Baia Mare skildu jöfn í viðureigninni í gær, 26:26, og mætast á nýjan leik í Hekluhöllinni á laugardaginn kl. 13. Miðasala er þegar hafin á stubb.is.