- Auglýsing -
- Auglýsing -

Óvissa bíður ÍBV-liðsins í Evrópuleikjum við Donbas

Magnús Stefánsson t.h. tekur við þjálfun ÍBV eftir keppnistímablið af Erlingi Richardssyni t.h. Mynd/ÍBV
- Auglýsing -

Eyjamenn renna algjörlega blint í sjóinn vegna leikja sinna tveggja við úkraínska liðið Donbas sem fram fara í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum á morgun og sunnudag. Leikirnir eru liður í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla og hefjast klukkan 14 báða dagana.

Donbas-liðið er komið til landsins eftir ferðalag frá Zaporízjzja.


Vilmar Þór Bjarnason framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV sagði við handbolta.is að ekkert sé vitað um getu liðsins sem kom til landsins seint í gærkvöld með flugi frá Varsjá. Þangað kom liðið eftir ferð frá Zaporízjzja með viðkomu í höfuðborginni Kyjiv áður en farið var áfram með lest til Varsjár í Póllandi.

Mynd af liði Donbas á siðu handknattleikssambands Evrópu, EHF.

Koma til Eyja í dag

„Nánast það eina sem við vitum er að hingað koma 14 karlmenn sem skipa liðið, tveir þjálfarar og kvenkynsfarastjóri, sú sem ég hef verið í sambandi við vegna skipulagningar komunnar til landsins. Hópurinn kemur til Vestmannaeyja í dag eftir að hafa gist á hóteli á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Maður á okkar vegum tók á móti hópnum í gærkvöld,“ sagði Vilmar Þór sem segir samskipti sín við talsmann félagsins hafa gengið vel.

Styrkleiki óþekktur

„Við erum spennt fyrir að taka á móti Donbas-liðinu og ætlum að gera það vel. Um styrkleika liðsins vitum við ekkert. Þetta verður fyrst og fremst spennandi verkefni,” sagði Vilmar Þór ennfremur.

Á vef Handknattleikssambands Evrópu, EHF, eru 14 leikmenn skráðir til leiks hjá Donbas-liðinu. Þeir eru á aldrinum 18 til 36 ára. Allir eru Úkraínumenn. Einn er skráður með rússneskt og úkraínskt ríkisfang og annar með aserskt og úkraínskt .


Sem fyrr segir hefjast leikirnir klukkan 14 á morgun og á sunnudag. Útsending verður á ÍBVtv og textalýsing á handbolti.is.


Miðasala á leikina er hafin á smáforritinu Stubbur hvar hægt er styðja við bakið á þátttöku ÍBV-liðsins í keppninni þótt fólk eigi ekki heimangengt á leikina.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -