- Auglýsing -
Einar Rafn Eiðsson hefur ekkert leikið með KA undanfarnar vikur og óvíst er hvenær hann er væntanlegur til leiks á ný. Einar Rafn meiddist á hné á æfingu fyrir um mánuði og var í fyrstu óttast að hann væri með slitið krossband. Staðan reyndist ekki svo alvarleg þótt slæm væri.
Einar Rafn sagði við handbolta.is í dag að innra liðband í hægra hné hafi slitnað og rifa komið í krossband. Ákveðið hafi verið að bíða með aðgerð og leyfa liðbandinu að gróa. Hann gengur með spelku um hnéið meðan liðbandið grær og standa vonir um að krossbandið sem rifa kom á grói. Framtíðin verður að skera úr um hvort aðgerðar verður þörf og þá hvenær.
„Ég fer í myndatöku fljótlega þá kemur betur í ljós hver staðan er á þessu öllu saman,“ sagði Einar Rafn en ljóst er að hann verður ekkert í eldlínunni með KA á næstunni fremur en undanfarnar vikur.
Einar Rafn gekk til liðs við KA á síðasta sumri eftir að hafa leikið um árabil með FH. Hann er næst markahæsti leikmaður KA-manna í Olísdeildinni.
KA leikur á morgun, miðvikudag, í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins gegn Selfossi á Ásvöllum kl. 20.15.
- Auglýsing -