- Auglýsing -
- Auglýsing -

Óvissa í Danmörku – af eða á fyrir vikulok

Frakkar fagna sigri á EM á heimavelli fyrir tveimur árum. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Fyrir vikulokin á að liggja fyrir hvort danska handknattleikssambandið tekur að sér að halda Evrópumót kvenna í handknattleik. Svo segir m.a. í sameiginlegri yfirlýsingu sem Handknattleikssamband Evrópu, EHF, og Handknattleikssamband Danmerkur sendu frá sér síðdegis í dag. Vonir stóðu til þess í gær, fljótlega eftir að norska handknattleikssambandið gekk út skaftinu varðandi mótahaldið í samvinnu við Dani, að niðurstaða lægi fyrir í dag.

Hver á að borga brúsann?


Marga enda þarf að hnýta áður en ákvörðun verður tekin. Fara þarf yfir málin af yfirvegun. Danska sambandið leggur þunga áherslu á að það verði geirneglt fyrirfram hver greiði viðbótarkostnað þann sem fellur nú á Dani. Danska ríkið ætlar ekki að leggja meira í púkkið. Ríkið lofaði stuðningi í haust þegar ljóst varð að áhorfendatekjur yrðu nær engar. Ljóst virðist að EHF verður að leggja fram fjármuni úr sínum sjóðum. Einnig hefur sjónum verið beint að Norðmönnum.

Margir þurfa að fá frí

Annað óvissuatriði snýr að öllum þeim sjálfboðaliðum og launuðum starfsmönnum sem vinna við þá viðbót sem vonast er til að Danir taki að sér. Allur þessi hópur verður nánast í vinnusóttkví meðan á mótinu stendur. Flestir þurfa að verða sér út um langt frí frá daglegum störfum með skömmum fyrirvara.

Ráðherra sagður óviss


Lítill tími er til stefnu. Til stendur að flauta til leiks 3. desember.
Danskir fjölmiðlar gera því skóna að menninga- og íþróttmálaráðherrannn, Joy Mogensen, sé ekki tilbúin að gleypa það hrátt að Danir taki að sér mótahaldið og hjá henni standi m.a. hnífurinn í kúnni.

Taki Danir ekki að sér mótahaldið verður EM fellt niður með tilheyrandi tekjutapi EHF sem hefur selt sýningaréttinn frá leikjum mótsins fyrir háar upphæðir.

Uppfært klukkan 20.25: Á fundi ráðherra og þingmanna með forsvarsmönnun danska handknattleikssambandsins síðdegis kom fram að yfirvöld standa þétt við bakið á sambandinu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -