Hið sænska Aftonbladet segir frá því að Thiagus Petrus, sem af mörgum er talinn vera fremsti varnarmaður heims meðal handknattleiksmanna, gangi til liðs við ungverska meistaraliðið Veszprém í sumar. Brasilíumaðurinn hefur leikið með Barcelona frá 2018. Hann þekkir vel til í Ungverjalandi eftir að hafa leikið með Pick Szeged frá 2015 til 2018.
Ef af verður þá er Petrus enn einn leikmaður Barcelona sem Xavi Pascual þjálfari Veszprém fær til liðs við félagið. Brotthvarf hans yrði mikið áfall fyrir Barcelona. Félagið hefur dregið mjög saman launakostnað á síðustu árum sem hefur orðið til þess að leikmenn hafa kosið að róa á önnur mið.
Danski markvörðurinn Emil Nielsen hefur þráfaldlega verið orðaður við Veszprém þegar samningur hans við Barcelona rennur út sumarið 2026.
Meðal annarra fyrrverandi leikmanna Barcelona sem hafa komið til Veszprém eftir að Pascual tók við eru Aron Pálmarsson og Luka Cindric. Pascual þjálfaði Barcelona frá 2009 til 2021 með frábærum árangri. Hann nýtur mikillar virðingar meðal leikmanna sinna enda talinn einn sá allra færasti í sínu fagi.