- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Polman fer óvænt til Rapid eftir 11 ár í Danmörku

Hollenska handknattleikskonan Estavana Polman hefur samið við Rapid Búkarest. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Ein fremsta og jafnframt ein umtalaðasta handknattleikskona undanfarinna ára, Estavana Polman, hefur verið seld til Rapid Búkarest eftir aðeins fimm mánuði í herbúðum danska úrvalsdeildarliðsins Nykøbing Falster (NFH). Hún kveður um leið Danmörku eftir 11 ára veru en 19 ára gömul gekk Polman til liðs við SønderjyskE.


Rapid Búkarest er nýliði í Meistaradeild kvenna í handknattleik og hefur komið liða mest á óvart á leiktíðinni. Rapid er efst í B-riðli keppninnar ásamt Györ með 10 stig eftir sex viðureignir og hefur ekki tapað leik til þessa.

Polman fær þar með tækifæri til þess að leika í Meistaradeild Evrópu, nokkuð sem er ekki í boði hjá Nykøbing Falster.

Gátu ekki hafnað tilboðinu

Talsmaður Nykøbing Falster segir í samtali við TV2 í félagið hafi fengið tilboð frá Rapid og því hafi félagið ekki getað hafnað. Ákvæði hafi verið í samningi Polman og Nykøbing Falster sem hafi gefið henni möguleika á að fara ef viðunandi tilboð bærist.

Kastaðist í kekki

Polman var burðarás hollenska landsliðsins þegar það varð heimsmeistari fyrir þremur árum auk þess að vera eitt helsta tromp danska liðsins Team Esbjerg. Sumarið 2020 sleit Polman krossband. Á ýmsu gekk í bataferlinu sem teygðist úr. Þegar á leið tímann kastaðist í kekki milli Polman annars vegar og þjálfara og stjórnenda Esbjerg hinsvegar. Andaði mjög köldu á milli fyrrverandi samherja.

Mamman skarst í leikinn

Botninum var væntanlega náð þegar móðir Polman las framkvæmdastjóra Esbjerg pistilinn í viðurvist áhorfenda á leik á síðasta tímabili. Virtist þá endanlega sjóða uppúr sem endaði með að Polman var sett út úr leikmannahópi Esbjerg og sagt að hún gæti leitað á ný mið. Um tíma leit út fyrir að Polman höfðaði mál á hendur Esbjergliðinu fyrir samningsbrot en því var afstýrt.

Virðist vera orðin góð

Polman hefur leikið flesta leiki Nykøbing Falster á keppnistímabilinu og var einnig í eldlínunni með hollenska landsliðinu á EM sem lauk á dögunum. Hún virðist hafa náð sér fullkomlega á strik eftir meiðslin.


Ekki fylgir fréttum dagsins hvort eiginmaður Polman, Rafael van der Vaart, fylgi henni til Búkarest. Hann er knattspyrnuþjálfari í Danmörku. Polman og van der Vaart eiga fimm ára gamla dóttur.


Polman kvaddi stuðningsmenn Nykøbing Falster í dag með eftirfarandi myndbandi á Facebook.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -