Rúmenska liðið Rapid frá Búkarest komst í gær í fyrsta sinn í átta liða úrslit í Meistaradeild kvenna í handknattleik. Rapid vann ævintýralegan sigur á Krim Ljubljana frá Slóveníu, 30:24, á heimavelli í síðari viðureigninni. Krim vann fyrri leikinn fyrir rúmri viku með fimm marka mun, 29:24. Leikmenn liðsins sitja eftir með sárt ennið.
Hollenska landsliðskonan Estavana Polman sýndi allar sínar bestu hliðar í leiknum í Búkarest. Hún skoraði m.a. átta mörk fyrir Rapid og bar sóknarleikinn uppi. Polman virðist vera að nálgast sitt fyrra form eftir langa þrautargöngu.

Dönsku liðin Odense Håndbold og Esbjerg komust einnig í átta liða úrslit auk ungverska liðsins FTC (Ferencváros). FTC átti ekki í erfiðleikum með Buducnost frá Svartfjallalandi. FTC vann síðari viðureignina á heimavelli á laugardaginn með fimm marka mun, 27:22, eftir 28:24 sigur í fyrri viðureigninni.
Odense Håndbold gerði jafntefli á heimavelli við Storhamar, 30:30, í síðari viðureign liðanna. Átta marka sigur í Noregi fyrir rúmri viku gerði að verkum að samanlagður sigur dönsku meistaranna var aldrei í verulegri hættu. Axel Stefánsson er annar þjálfara Storhamar.
Leikmenn Esbjerg voru einnig með öll ráð í höndum sér í báðum viðureignum við franska liðið Brest Bretagne. Esbjerg vann heimaleikinn í gær, 27:24, og báðar viðureignir samanlagt, 55:49.
Evrópumeistarar Vipers Kristiansand, franska liðið Metz, Györ frá Ungverjalandi og CSM frá Búkarest sátu yfir í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar. Leikmenn liðanna mæta galvaskir til leiks í átta liða úrslitum sem fram fara 29. apríl og 6. maí.
Í átta liða úrslitum mætast: Esbjerg - CSM Búkarest. Odense - Györ. FTC - Metz. Rapid Búkarest - Vipers Kristiansand. Leikirnir fara fram 29. apríl og 6. maí.
Undaúrslit framundan í Evrópdeildinni
Átta liða úrslitum Evrópudeildar kvenna í handknattleik lauk um helgina með síðari leikjum í rimmunum fjórum. Þýsku liðin Thüringen og Dortmund komust áfram ásamt tveimur dönskum liðum, Nyköbing-Falster og Ikast.
Í síðari umferðinni bar eflaust hæst stórsigur Dortmund á Nantes, 32:22. Franska liðið stóð vel að vígi fyrir heimsóknina til Dortmund eftir að hafa unnið með níu marka mun á heimavelli, 28:19, fyrir viku, Vopnin snerust svo sannarlega í höndum Helle Thomsen og leikmanna hennar í Nantes.
Með Dortmund leikur sænska handknattleikskonan Emma Olsson sem varð Íslands- og deildarmeistari með Fram á síðasta vori. Hún skoraði þrjú mörk í sigurleiknum á Nantes.

Úrslit síðari leikjanna í átta liða úrslitum og samanlögð úrslit:
Thüringen – Sola 27:24 (62:59).
Dortmund – Nantes 32:22 (51:50).
Nykøbing Falster – Valcea 38:29 (67:61).
Ikast – Siofok KC 31:21 (61:41).
Dregið verður til undanúrslita á morgun, þriðjudag. Úrslitahelgi Evrópudeildarinnar verður í Graz í Austurríki 13. og 14. maí.