- Auglýsing -
- Auglýsing -

Polman fór á kostum og Rapid sneri við taflinu

Kathrine Heindahl og félagar í Esbjerg fagna sigri í gær og sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Rúmenska liðið Rapid frá Búkarest komst í gær í fyrsta sinn í átta liða úrslit í Meistaradeild kvenna í handknattleik. Rapid vann ævintýralegan sigur á Krim Ljubljana frá Slóveníu, 30:24, á heimavelli í síðari viðureigninni. Krim vann fyrri leikinn fyrir rúmri viku með fimm marka mun, 29:24. Leikmenn liðsins sitja eftir með sárt ennið.


Hollenska landsliðskonan Estavana Polman sýndi allar sínar bestu hliðar í leiknum í Búkarest. Hún skoraði m.a. átta mörk fyrir Rapid og bar sóknarleikinn uppi. Polman virðist vera að nálgast sitt fyrra form eftir langa þrautargöngu.

Gleði og ánægja ríkti meðal leikmanna og stuðningsmanna ungverska liðsins FTC þegar ljóst varð að liðið er komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Mynd/EPA


Dönsku liðin Odense Håndbold og Esbjerg komust einnig í átta liða úrslit auk ungverska liðsins FTC (Ferencváros). FTC átti ekki í erfiðleikum með Buducnost frá Svartfjallalandi. FTC vann síðari viðureignina á heimavelli á laugardaginn með fimm marka mun, 27:22, eftir 28:24 sigur í fyrri viðureigninni.


Odense Håndbold gerði jafntefli á heimavelli við Storhamar, 30:30, í síðari viðureign liðanna. Átta marka sigur í Noregi fyrir rúmri viku gerði að verkum að samanlagður sigur dönsku meistaranna var aldrei í verulegri hættu. Axel Stefánsson er annar þjálfara Storhamar.


Leikmenn Esbjerg voru einnig með öll ráð í höndum sér í báðum viðureignum við franska liðið Brest Bretagne. Esbjerg vann heimaleikinn í gær, 27:24, og báðar viðureignir samanlagt, 55:49.


Evrópumeistarar Vipers Kristiansand, franska liðið Metz, Györ frá Ungverjalandi og CSM frá Búkarest sátu yfir í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar. Leikmenn liðanna mæta galvaskir til leiks í átta liða úrslitum sem fram fara 29. apríl og 6. maí.

Í átta liða úrslitum mætast:
Esbjerg - CSM Búkarest.
Odense - Györ.
FTC - Metz.
Rapid Búkarest - Vipers Kristiansand.
Leikirnir fara fram 29. apríl og 6. maí.

Undaúrslit framundan í Evrópdeildinni

Átta liða úrslitum Evrópudeildar kvenna í handknattleik lauk um helgina með síðari leikjum í rimmunum fjórum. Þýsku liðin Thüringen og Dortmund komust áfram ásamt tveimur dönskum liðum, Nyköbing-Falster og Ikast.

Í síðari umferðinni bar eflaust hæst stórsigur Dortmund á Nantes, 32:22. Franska liðið stóð vel að vígi fyrir heimsóknina til Dortmund eftir að hafa unnið með níu marka mun á heimavelli, 28:19, fyrir viku, Vopnin snerust svo sannarlega í höndum Helle Thomsen og leikmanna hennar í Nantes.

Með Dortmund leikur sænska handknattleikskonan Emma Olsson sem varð Íslands- og deildarmeistari með Fram á síðasta vori. Hún skoraði þrjú mörk í sigurleiknum á Nantes.

Leikmenn Ikast taka þátt í úrslitahelgi Evrópudeildarinnar í Graz í Austurríki í næsta mánuði. Mynd/EPA


Úrslit síðari leikjanna í átta liða úrslitum og samanlögð úrslit:
Thüringen – Sola 27:24 (62:59).
Dortmund – Nantes 32:22 (51:50).
Nykøbing Falster – Valcea 38:29 (67:61).
Ikast – Siofok KC 31:21 (61:41).

Dregið verður til undanúrslita á morgun, þriðjudag. Úrslitahelgi Evrópudeildarinnar verður í Graz í Austurríki 13. og 14. maí.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -