- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Pólskipti í KA-heimilinu

Ragnar Snær Njálsson og Dagur Gautason, leikmenn KA, fanga. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Stjörnumenn fóru illa að ráði sínu í KA-heimilinu í kvöld sem varð þess valdandi að þeir taka aðeins annað stigið með sér suður, 29:29. Þeir fengu á sig 21 mark í síðari hálfleik eftir að leikur þeirri hrundi eins og spilaborg síðustu 20 mínúturnar. Skyndileg pólskipti urðu þegar leikmenn Stjörnunnar virtust vera með öll ráð á sinni hendi liðlega 20 mínútum fyrir leikslok sjö mörkum yfir.


KA færðist upp í áttunda sæti úr tíunda. Hefur sex stig eftir sjö leiki og er stigi á eftir Stjörnunni sem er í sjöunda sæti Olísdeildar karla.

Virtust ekki vera komnir heim

Stjarnan var sex mörkum yfir í hálfleik, 14:8, eftir að hafa skorað fjögur fyrstu mörkin. Leikmenn KA voru úti á þekju í fyrri hálfleik, ekki síst framan af. Þeir virtust enn vera í Vínarborg þar sem þeir léku um síðustu helgi. Ekki stóð steinn yfir steini, hvar sem litið var. Leikmenn Stjörnunnar voru í raun klaufar að vera ekki með mikið meira forskot þegar fyrri hálfleikur var að baki.

Eins og þruma í heiðríkju

Á fyrstu mínútum síðari hálfleiks benti ekki margt endilega til þess að pólskipti væru í aðsigi. Stjarnan náði sjö marka forskoti, 17:10 og 18:11. Byr virtist í seglum. Þá var eins þruma úr heiðskíru lofti slægi í bakseglin. Á sama tíma virtust heimamenn í KA skyndilega sjá til lands og þeir hertu róðurinn allt hvað af tók.

Stjörnumönnum féll allur ketill í eld á sama tíma. Þeir sáu forskotið renna sér úr greipum jafnt og þétt og fengu lítt við ráðið.


Patrekur Stefánsson jafnaði metin í fyrsta sinn, 26:26, þegar fimm mínútur voru eftir og mínútu síðari kom Dagur Árni Heimisson KA-liðinu yfir í fyrsta og eina sinn, 27:26.

Starri Friðriksson, hornamaður Stjörnunnar, að skora eitt átta mark sinna. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Það sem eftir lifði leiks var stál í stál. Starri Friðriksson kom Stjörnunni yfir, 29:28, þegar rúm mínúta var eftir. Patrekur jafnaði metin, 29:29. Þá voru 40 sekúndur eftir. Stjarnan fór í sókn, átti ekkert leikhlé eftir. Sóknin endaði með markskoti sem Nicholas Satchwell varði. KA-menn geystust fram og vantaði ekki nema sekúndu eða tvær til að skora sigurmarkið. Svo glöggt stóð.


Það var hreint ótrúlega að sjá til undanhaldsins sem greip Stjörnumenn þegar á leið síðari hálfleik. Að sama skapi var magnað að verða vitni að þeim umskiptum sem urði á KA-liðinu sem virtist ekki hafa mikla trú á eigin getu í fyrri hálfleik.


Mörk KA: Dagur Gautason 7/2, Patrekur Stefánsson 7, Gauti Gunnarsson 5, Einar Rafn Eiðsson 4, Dagur Árni Heimisson 4, Einar Birgir Stefánsson 2.
Varin skot: Nicholas Adam Satchwell 8, Bruno Bernat 4.
Mörk Stjörnunnar: Starri Friðriksson 8/5, Hergeir Grímsson 7, Þórður Tandri Ágústsson 7, Gunnar Steinn Jónsson 2, Pétur Árni Hauksson 2, Arnar Freyr Ársælsson 1, Brynjar Hólm Grétarsson 1, Tandri Már Konráðsson 1.
Varin skot: Arnór Freyr Stefánsson 7.


Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -