- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ragnheiði héldu engin bönd í Kórnum

Ragnheiður Júlíusdóttir stórskytta Fram og landsliðskona í handknattleik. Mynd/Fram
- Auglýsing -

Stórskyttan Ragnheiður Júlíusdóttir fór hamförum í Kórnum í kvöld þegar Fram vann HK, 32:22, í Olísdeild kvenna og komst upp að hlið KA/Þórs í efsta sæti deildarinnar með 12 stig eftir átta leiki. Ragnheiði héldu engin bönd fremur en í mörgum fyrri leikjum Fram á leiktíðinni. Alls skoraði hún 12 mörk og hefur þar með skoraði alls 76 mörk eða vel rúmlega níu mörk að meðaltali í leik í deildinni. Ragnheiður er lang efst á lista yfir markahæstu konur deildarinnar.


Ekki varð það til að draga úr styrk Fram-liðsins að Steinunn Björnsdóttir mætti til leiks aftur eftir að hafa fengið þungt högg á augað fyrir hálfum mánuði í kappleik við FH. Steinunn lét til sína taka jafnt í vörn sem sókn og skoraði m.a. fimm mörk. Þá var Karólína Bæhrenz Lárudóttir óstöðvandi í liði Fram. Hún skoraði sjö mörk í átta skotum.


HK-liðið hefur orðið fyrir blóðtöku upp á síðkastið, m.a. tók Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir sér frí frá handknattleik fyrir nokkrum vikum eftir að staðfest var að hún gengur með barn undir belti.

Kópavogsliðið náði aðeins að elta Fram í fyrri hálfleik í Kórnum í dag. Munurinn var fjögur mörk að honum loknum, 16:12. Þegar kom fram í síðari hálfleik fékk HK ekki við neitt ráðið og Fram-liðið vann öruggan sigur.


HK er í næst neðsta sæti deildarinnar með fimm stig eftir átta leiki og er tveimur stigum á eftir ÍBV og Haukum.

Mörk HK: Tinna Sól Björgvinsdóttir 7, Kristín Guðmundsdóttir 4, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 4, Þóra María Sigurjónsdóttir 3, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 3, Sigríður Hauksdóttir 1.
Varin skot: Alexandra Von A. Gunnarsdóttir 10, 29,4% – Selma Þóra Jóhannsdóttir 2, 20%
Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 12/5, Karólína Bæhrenz Lárudóttir 7, Steinunn Björnsdóttir 5, Lena Margrét Valdimarsdóttir 3, Kristrún Steinþórsdóttir 3, Elva Þóra Arnardóttir 1, Unnur Ómarsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 5, 38,5% – Katrín Ósk Magnúsdóttir 4 – 22,2%.

Staðan í Olísdeild kvenna og karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -