- Auglýsing -
- Auglýsing -

Reiknum með fimm leikja rimmu

Kristinn Björgúlfsson þjálfari ÍR. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Við búum okkur undir jafnt einvígi sem reikna má með að fari í fimm leiki,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari karlaliðs ÍR en liðsmenn hans hefja í dag úrslitarimmu við Fjölni um sæti í Olísdeild karla á næsta keppnistímabili. Fyrsta viðureignin fer fram á heimavelli ÍR í Austurbergi og hefst klukkan 16.

Skiptir máli að ná frumkvæði

„Bæði lið leggja vafalaust höfuðáherslu á að vinna fyrsta leikinn og ná frumkvæðinu. Það getur skipt miklu máli,“ sagði Kristinn ennfremur.


ÍR hafnaði í öðru sæti Grill66-deildar á keppnistímabilinu. Fjölnir hreppti þriðja sæti og vann Þór Akureyri í tveimur leikjum í undanúrslitum umspilsins. ÍR lagði lið Kórdrengja í tveimur viðureignum en lenti í nokkru basli í fyrri leiknum. Varð þá að grípa til þess ráðs að framlengja leikinn. Báðum rimmum undanúrslita lauk um síðustu helgi og hafa ÍR-ingar haft einum degi meira til að sleikja sárin.

Hvorum megin er reynslan?

Fjölnir fór í umspil á síðasta ári og nokkrir leikmanna liðsins voru í liði Fjölnis sem fór í gegnum umspil fyrir nokkrum árum. Minni reynsla af keppni sem þessari er innan raða ÍR-inga þótt innan liðsins séu vissulega reynslumenn eins og Andri Heimir Friðriksson, Kristján Orri Jóhannsson og Sigurður Ólafsson, markvörður sem hafa marga fjöruna sopið.

Umspil um sæti í Olísdeild karla:
30.apríl - Austurberg, kl. 16: ÍR - Fjölnir.
2.maí - Dalhús, kl. 19.30: Fjölnir - ÍR.
5.maí - Austurberg, kl. 19.30: ÍR - Fjölnir.
8.maí - Dalhús, kl. 16: Fjölnir - ÍR.
11.maí - Austurberg, kl. 19.30: ÍR - Fjölnir. 

Liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki tekur sæti í Olísdeild karla á næstu leiktíð eins og Hörður frá Ísafirði sem vann Grill66-deildina og komst hjá umspili. 


„Þótt margir vilji halda því fram að reynslan sé mín megin þá vil ég nú halda því fram að hún sé meiri meðal leikmanna Fjölnisliðsins,“ sagði Kristinn.


Staðan á leikmannahópi ÍR er góð að sögn Kristins. Ekkert mælir gegn því að hann geti teflt fram sínum vöskustu liðsmönnum í dag.

Búast má við miklum markaleikjum

Sé tekið mið af fyrri leikjum liðanna í Grill66-deildinni er ekki loku fyrir það skotið að mörg mörk verði skoruð í leikjum ÍR og Fjölnis, alltént til að byrja með áður en þreytan fer að segja til sín. Alls voru skoruð 134 mörk í tveimur viðureignum liðanna á leiktíðinni.


„Skákin mun vafalaust vinnast á því hvoru liðinu gengur betur að þétta vörnina. Vonandi gengur planið upp sem við höfum sett upp. Að minnsta kosti í fyrsta leiknum.


Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni sem verður góð reynsla bæði fyrir mig og leikmennina mína,“ sagði Kristinn Björgúlfsson þjálfari ÍR í samtali við handbolta.is í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -