Norska handknattleikskonan Henny Reistad hefur verið valin mikilvægasti leikmaður Evrópumóts kvenna sem lýkur kvöld. Tilkynnt var um úrvalslið mótsins rétt fyrir hádegið en þúsundir áhugafólks um handknattleik mun hafa tekið þátt í að velja liðið eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Handknattleikssambandi Evrópu.
Valið á Reistad kemur ekki á óvart. Hún hefur leikið afar vel með norska landsliðinu á mótinu. Reistad er um þessar mundir næst markahæst með 43 mörk auk 22 stoðsendinga sem skilað hafa félögum hennar mörkum.
Úrslitaleikur í kvöld
Reistad og félagar í norska landsliðinu leika gegn Dönum í úrslitaleik EM í Ljubljana í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30 og verður m.a. hægt að fylgjast með leiknum í útsendingu RÚV2. Svartfellingar og Frakkar leika um bronsverðlaun mótsins og hefja leik klukkan 16.45. Einnig verður mögulegt að fylgjast með þeirri viðureign á RÚV2.
Lunde og Þórir með fyrir 18 árum
Noregur og Danmörk hafa ekki mæst í úrslitaleiks stórmóts í handknattleik kvenna í 18 ár. Lið þjóðanna léku úrslitaleik EM 2004 í Búdapest og vann Noregur, 27:25. Katrine Lunde, annar markvörður norska landsliðsins í úrslitaleiknum í kvöld, tók þátt í úrslitaleiknum fyrir 18 árum. Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs var þá aðstoðarþjálfari og hægri hönd Marit Breivik þáverandi landsliðsþjálfara.
Úrvalslið EM kvenna er skipað eftirtöldum leikmönnum:
Markvörður: Cleopatre Darleux, Frakklandi.
Vinstra horn: Emma Friis, Danmörku.
Vinstri skytta: Cristina Neagu, Rúmeníu.
Miðjumaður: Stine Oftedal, Noregi.
Hægri skytta: Katrin Klujber, Ungverjalandi.
Hægra horn: Jovanka Radicevic, Svartfjallalandi.
Línumaður: Pauletta Foppa, Frakklandi.
Varnarmaður: Kathrine Heindahl, Danmörku.
Mikilvægasti leikmaður: Henny Reistad, Noregi.