Reykjavíkurfélögin Valur og Fram mætast í úrslitum Coca Cola-bikars kvenna í handknattleik á laugardaginn. Valur vann öruggan sigur á ÍBV, 28:20, í síðari undanúrslitaleik kvöldsins á Ásvöllum í kvöld eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 12:9.
Þetta verður í fjórtánda sinn sem Valur leikur til úrslita í bikarkeppninni í kvennaflokki og í 23. skipti hjá Fram.
Fyrstu 20 mínútur leiksins voru jafnar en lítið skorað enda markvarsla og varnarleikur með ágætum. Síðustu 10 mínútur hálfleiksins voru hinsvegar afleitar af hálfu ÍBV, ekki síst í sókninni. Liðið skoraði aðeins tvö mörk og var í raun heppið að vera aðeins þremur mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 12:9. Með meiri yfirvegun í sóknarleiknum hefði Valur hæglega getað haft meira forskot en raun varð á.
Því miður var svartnætti í sóknarleik ÍBV á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks. Liðið skorað aðeins eitt mark en Valur fimm á sama tíma. Bilið á milli liðanna jókst og varð mest sjö mörk, 17:10 og 18:11, þegar 11 mínútur voru liðnar af leiktíma síðari hálfleiks. Vissulega varði Sara Sif Helgadóttir vel í marki Vals en það var ekki eina skýringin á þeim mun sem varð á liðunum. Valsvörnin var mjög góð einnig og náði að halda sóknarmönnum ÍBV mjög niðri.
ÍBV tókst að minnka forskot Vals niður í fjögur mörk, 19:15, eftir að hafa farið í sjö á sex í sókninni. Valskonur sáu til þess að áhlaup ÍBV-liðsins náði ekki lengra. Nær komst Eyjaliðið ekki og Valur sigldi öruggum sigri í höfn.
Mörk Vals: Lovísa Thompson 7/3, Thea Imani Sturludóttir 6, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 4/4, Morgan Marie Þorkelsdóttir 3, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Ída Margrét Stefánsdóttir 2, Auður Ester Gestsdóttir 2, Hulda Dís Þrastardóttir 1, Elín Rósa Magnúsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 14, 45,2% – Saga Sif Gísladóttir 1, 25%.
Mörk ÍBV: Marija Jovanovic 4, Sunna Jónsdóttir 4, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 4, Karolina Olszowa 2, Elísa Elíasdóttir 2, Lina Cardell 1, Aníta Björk Valgeirsdóttir 1, Harpa Valey Gylfadóttir 1, Ólöf María Stefánsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 8/1, 32% – Erla Rós Sigmarsdóttir 5, 35,7%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Handbolti.is var á Ásvöllum og fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.