- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Reyndi að láta þetta ekki skemma sumarfríið

Janus Daði Smárason landsliðsmaður í handknattleik er ánægður með að vera kominn með fast land undir fætur. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Janus Daði Smárason segir það hafa komið leikmönnum Kolstad í opna skjöldu þegar þeim var greint frá því daginn áður en farið var í sumarfrí um miðjan júní að félagið ætti í fjárhagskröggum. Fyrir dyrum stæði mikill niðurskurður á öllum sviðum, þar á meðal var óskað eftir að leikmenn tækju á sig miklar launalækkanir. Þetta hafi komið flatt upp á menn vegna þess að ekkert hafi bent til að staðan væri slæm.

Úr fögnuði á krísufund

„Fyrr um daginn fögnuðum við því að Kolstad hafði fengið sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Í kjölfarið vorum við kallaðir á fund og sagt að klúbburinn væri í mjög vondum málum fjárhagslega,“ sagði Janus Daði í samtali við handbolti.is í dag eftir að tilkynnt var að hann hafi skrifað undir eins árs samning við þýsku Evrópmeistarana SC Magdeburg.

Kom flatt upp á alla

„Þetta var mjög dramatískt og kom flatt upp á okkur. Engan grunaði að þessi væri raunin. Að fá þetta bara beint í andlitið daginn fyrir sumarfrí og meira en hálfum mánuði eftir að við fögnuðum meistaratitlinum var mjög slæmt. Óhætt er að segja að illa hafi verið að þessu staðið af hálfu félagsins,“ sagði Janus Daði og viðurkenndi að það hafi verið erfitt að fara með þessar fregnir inn í sumarfríið.

Janus Daði Smárason á æfingu fyrir leik á EM í Búdapest í janúar 2022. Fyrir aftan Janus er Gísli Þorgeir Kristjánsson sem Janus leysir af hjá Magdeburg. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Reyndi að skemma ekki fríið

„Ég reyndi að láta þetta ekki skemma fyrir mér sumarfríið en vissulega hafði þetta allt saman áhrif á mann. Ég hef verið mikið í símanum og á Teams við að tala við félagana og umboðsmanninn. Bæði þurftum við að velta fyrir okkur hvernig við ættum að bregðast við sem leikmannahópur og hvað ég vildi síðan gera sjálfur,“ sagði Janus Daði og viðurkenndi að fargi hafi verið létt þegar vitnaðist út um áhuga Evrópumeistara SC Magdeburg. Ekki væri einfalt mál að skipta um lið á miðju sumri þegar flest hafa fyrir löngu gengið frá öllum sínum leikmannamálum fyrir næstu leiktíð og æfingar að hefjast.

Var svo heppinn

„Ég fór vitanlega að velta fyrir mér hvaða möguleikar væru fyrir hendi hjá mér aðrir en Kolstad. Öryggi mitt hjá Kolstad til framtíðar og framhaldið var óljóst. Fljótlega kom í ljós að ég var svo heppinn að Magdeburg vildi fá mig. Magdeburg er að mínu mati eitt fárra félaga í heiminum sem getur boðið mér, jafn vel eða betur íþróttalega, en það sem ég var með hjá Kolstad. Það var lykilatriðið þegar ég ákvað að taka þátt í þeim slag sem stendur fyrir dyrum hjá Magdeburg á næstu leiktíð, bæði í þýsku deildinni og í Meistaradeildinni.

Janus Daði Smárason í landsleik við Svía á HM í janúar. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Ég gat ekki sagt nei enda tel ég mig vera tilbúinn til að skila því hlutverki sem ætlast er til af mér,“ sagði Janus Daði sem er í Þrándheimi að ganga frá nokkrum málum áður en hann skilur unnustu sína, Emblu Jónsdóttur, eftir til þess að hnýta síðustu lausu endana fyrir flutning á ný til Þýskalands eftir árs dvöl í Noregi.

Thomas Schöneich fjölmiðlafulltrúi Handknattleikssambands Evrópu staðfestir við VG í Noregi í dag að Kolstad hafi staðfest í umsókn um sæti í Meistaradeild Evrópu í júní að félagið ætti fyrir útgjöldum næsta árs og að á félaginu hvíldu ekki kröfur vegna ógreiddra skulda. 
Fáeinum dögum síðar var leikmönnum greint frá slæmri stöðu og að fyrir dyrum stæði mikill niðurskurður launa. Þar á ofan skuldar félagið uppbótargreiðslur til leikmanna vegna titla sem unnust á síðustu leiktíð.

Fyrsta æfing á föstudaginn

„Ég er fyrst og síðast glaður yfir að málin hafa fengið farsælan endi. Ég get farið að einbeita mér að handboltanum og gera mig kláran í fyrstu æfingu hjá Magdeburg á föstudaginn. Ég hlakka til tímabilsins enda á ég ennþá eftir að upplifa þýsku deildina af einhverju ráði. Ég var í tvö ár hjá Göppingen þar sem Covid og meiðsli settu strik í reikninginn hjá mér. Ég á eftir að vinna þýsku deildina. Það er markmið mitt á næsta tímabili,“ sagði Janus Daði Smárason í samtali við handbolta.is í dag en þess má geta að hann hefur orðið landsmeistari á Íslandi, í Danmörku og í Noregi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -