- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Reynir Þór æfði með Gummersbach í Krikanum

Reynir Þór Stefánsson í leik með U20 ára landsliðinu á EM í sumar. Mynd/EHF
- Auglýsing -


Hinn efnilegi handknattleiksmaður Fram, Reynir Þór Stefánsson, æfði með þýska liðinu Gummersbach í Kaplakrika í hádeginu á mánudaginn, daginn fyrir viðureign liðsins við FH. Reynir Þór sagði í skilaboðum til handbolta.is að vegna meiðsla í leikmannahópi Gummersbach hafi honum verið boðið að taka þátt í æfingunni sem hann hafi þegið og haft ánægju af.

Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach. Vart þarf að koma á óvart þótt frammistaða Reynis Þórs hafi gripið athygli Guðjóns Vals og fleiri þjálfara. Reynir Þór lék einkar vel með Fram á síðustu leiktíð þangað til hann meiddist síðla tímabils. Einnig hefur pilturinn farið á kostum í fyrstu leikjum Olísdeildarinnar í haust. Heldur má ekki gleyma frammistöðu Reynis Þórs á Evrópumóti 20 ára landsliða í Slóveníu í júlí. Hann var ekki aðeins í hópi markahæstu leikmanna mótsins heldur á meðal þeirra allra bestu. Kom það ýmsum sem með mótinu fylgdust á óvart að Reynir Þór var ekki valinn í úrvalslið mótsins.

14 nöfn á skýrslu

Víst er skarð er fyrir skildi í leikmannahópi Gummersbach um þessar mundir og m.a. voru 14 leikmenn á skýrslu í viðureigninni við FH í gærkvöld. Að jafnaði mega nöfn 16 leikmanna vera á leikskýrslu. Teitur Örn Einarsson og þýski landsliðsmaðurinn Julian Köster eru á sjúkralista ásamt fleirum.

Ekki í fyrsta sinn

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Guðjón Valur fær efnilega íslenska handknattleiksmenn til æfinga með liði sínu. Adam Thorstensen markvörður Stjörnunnar var við æfingar með Gummersbach um skeið í sumar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -