Handknattleiksmaðurinn Ari Magnús Þorgeirsson segir meiri líkur en minni vera á að hann leiki ekki í Olísdeildinni á komandi leiktíð. Þetta staðfesti hann í samtali við handbolta.is í morgun. Hann hefur ekkert æft með Stjörnuliðinu í sumar.
„Ég hef ekki gefið út formlega yfirlýsingu áður en það er sennilega níutíu prósent líkur á að ég sé hættur nema að eitthvað mjög spennandi tilboð komi upp í hendurnar á mér,“ sagði Ari Magnús þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið.
Ari Magnús hefur síðustu sjö ár leikið með Stjörnunni og gengið í gegnum súrt og sætt með liðinu á þeim tíma og leikið með því í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins. Hann var markahæsti leikmaður Stjörnunnar í efstu deild leiktíðina 2015/2016.
Ari Magnús er í mikilli handknattleiksfjölskydu. Má þar m.a. nefna að móðir hans, Kristjana Aradóttir, lék m.a. með FH og Selfossi og þjálfaði einnig. Systir Ara er Hildur, leikmaður bikar- og Íslandsmeistara Fram, fyrrverandi atvinnukona í handbolta og landsliðskona, svo einhverjir séu nefndir. Ari Magnús ólst upp eins og fleiri í fjölskyldunni hjá FH og lék með Hafnarfjarðarliðinu upp í meistaraflokk áður en hann söðlaði um og færði sig yfir í næsta bæjarfélag.