- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Rúnar og Viggó skelltu þriðja toppliðinu í röð

Viggó Kristjánsson landsliðsmaður og leikmaður Leipzig. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar vann Leipzig þriðja topplið þýsku 1.deildarinnar í röð í kvöld þegar liðsmenn Rhein-Neckar Löwen komu í heimsókn og töpuðu með átta marka mun, 37:29. Fyrir þremur vikum vann Leipzig þýsku meistarana Magdeburg og fyrir nærri hálfum mánuði sótti Leipzig tvö stig í heimsókn til Kiel.


Þetta var tíundi sigurleikur Leipzig af 12 leikjum undir stjórn Rúnars sem tók við liðinu í fallbaráttu í byrjun nóvember. Nú er Leipzig komið í hóp efstu liða deildarinnar.


Viggó Kristjánsson átti enn einn stórleikinn fyrir Leipzigliðið í kvöld. Hann skoraði 11 mörk og átti fjórar stoðsendingar. Þrjú marka sinni skoraði Viggó úr vítaköstum.


Viggó er nú kominn upp í þriðja sæti á lista yfir markahæstu leikmenn deildarinnar með 130 mörk en hlutverk hans og ábyrgð jókst eftir að Rúnar tók við stjórntaumnum. Hefur Viggó svo sannarlega staðið undir ábyrgð. Juri Knorr skoraði 11 mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen. Ýmir Örn Gíslason skoraði ekki mark í leiknum fyrir Löwen-liðið.


Þýsku meistararnir, SC Magdeburg, töpuðu óvænt fyrir Hannover-Burgdorf í Hannover í kvöld, 34:31. Tapið gæti reynst liðinu dýrt þegar upp verður staðið frá titilvörninni í vor. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék afar vel fyrir Magdeburgliðið. Hann skoraði átta mörk í níu skotum og átti tvær stoðsendingar.

Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem hefur aldeilis gert það gott á keppnistímabilinu. Hannover-Burgdorf situr í sjötta sæti.


Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk en Hákon Daði Styrmisson ekkert þegar Gummersbach tapaði fyrir efsta liði þýsku 1. deildarinnar, Füchse Berlin, 38:33.

Sveinn Jóhannsson og samherjar hans í GWD Minden töpuðu enn einu sinni í kvöld þegar þeir mættu Stuttgart á heimavelli 23:29. Sveinn skoraði tvö mörk og var einu sinni vísað af leikvelli.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -