- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Rúnar skaut baráttuglaða Víkinga á kaf

Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV.- Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Rúnar Kárason gerði gæfumuninn í Víkinni í kvöld þegar ÍBV sótti nýliða Víkinga heim og unnu með þriggja marka mun, 30:27, í fyrstu umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Eftir erfiðan fyrri hálfleik þá skaut Rúnar Víkinga í kaf í þeim síðari. Hann skoraði níu mörk í 10 skotum og átti stærstan þátt í að Eyjamenn fóru með stigin tvö í farteskinu heim.


Víkingar voru öflugri í þessum leik í 45 mínútur og voru m.a. með tveggja marka forskot, 12:10, í hálfleik og náðu um skeið þriggja marka forystu í síðari hálfleik, 22:19, þegar um 16 mínútur voru eftir af leiktímanum. Eftir það sóttu leikmenn ÍBV í sig veðrið í framhaldi af leikhléi sem Erlingur Richardsson tók. Jöfnuðu þeir metin og komust yfir á síðustu 10 mínútunum. Leikmenn Víkings gáfu eftir. Það dró úr yfirveguninni í sóknarleiknum og marktækifæri fóru til spillis. Um leið réðu þeir ekkert við Rúnar sem skoraði að vild auk þess að eiga þrjár stoðsendingar.


Víkingar voru skiljanlega vonsviknir yfir að tapa leiknum eftir að hafa verið með frumkvæðið lengi vel. Þeir geta hinsvegar gengið stoltir frá þessum leik og mega alls ekki láta hug falla. Þeir veittu sterku liði ÍBV harða keppni og víst er ef leikmenn Víkings halda áfram á þeirri braut sem þeir voru á í kvöld verða þeir skeinuhættir flestum liðum deildarinnar.


Eyjamenn voru lengi í gang. Varnarleikurinn var slakur lengi vel og menn voru í miklum vandræðum með línumenn Víkinga. Hefði Björn Viðar Björnsson ekki varið allt hvað af tók í fyrri hálfleik er ljóst að munurinn hefði verið meiri að loknum fyrri hálfleik og róðurinn orðið þyngri í síðari hálfleik en raun varð á.


Björn náði sér ekkert á strik í síðari hálfleik, ekki fremur en samherji hans Petar Jokanovic eða markverðir Víkings, Jovan Kukobat og Sverrir Andrésson. Kukobat átti fína kafla í fyrri hálfleik en síðan ekki söguna meir.


Mörk Víkings: Jóhann Reynir Gunnlaugsson 6, Hjalti Már Hjaltason 5, Jóhannes Berg Andrason 5, Styrmir Sigurðsson 3, Anrar Huginn Ingason 3, Arnar Steinn Arnarsson 3, Arnar Gauti Grettisson 1, Benedikt Elvar Skarphéðinsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 8, 25,8% – Sverrir Andrésson 0.
Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 10, Kári Kristján Kristjánsson 5, Gabríel Matrinez Róbertsson 5, Nökkvi Snær Óðinsson 3, Dagur Arnarsson 2, Ásgeir Snær Vignisson 2, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1, Dánjal Ragnarsson 1, Arnór Viðarsson 1.
Varin skot:
Björn Viðar Björnsson 7, 25%. Petar Jokanovic 0.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -