Rúnar Sigtryggsson hefur tímabundið verið ráðinn þjálfari hjá þýska 2. deildarliðinu EHV Aue. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins fyrir stundu. Rúnar þekkir vel til í herbúðum liðsins enda var hann þjálfari þess frá 2012 til 2016.
Stephan Swat, aðalþjálfari EHV Aue, veiktist alvarlega á dögunum af kórónuveirunni og varð að leggjast inn á sjúkrahús. Ljóst þykir að hann mun ekki sinna störfum sínum á næstunni.
Rúnar er kominn til Aue og verður í eldlínunni annað kvöld þegar EHV Aue mætir ThSV Eisenach á heimavelli.
„Þetta gerðist hratt og tilefnið er ekkert ánægjulegt. Ég vona að þetta verði bara í stuttan tíma,“ sagði Rúnar í skilaboðum til handbolta.is fyrir stundu.
Rúnar hætti þjálfun hjá Stjörnunni í vor sem leið. Hann er þjálfari U16 ára karlaliðs Íslands í handknattleik.
Með Aue leika tveir íslenskir handknattleiksmenn, Arnar Birkir Hálfdánsson og Sveinbjörn Pétursson, markvörður. Sá síðarnefndi lék einnig með EHV Aue þegar Rúnar var í stóli þjálfara frá 2012 til 2016.