Átta af sextán leikmönnum rússneska landsliðsins í handknattleik karla, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, hafa verið úrskurðaðir í bann frá keppni og æfingum innan rússneska handknattleikssambandsins eftir að það sannaðist að þeir hafi tekið þátt í veðmálabraski tengdum leikjum rússneska landsliðsins á Evrópumeistaramótinu sem fram fór í Króatíu frá 12. til 22. ágúst. M.a. veðjuðu þeir á móti eigin liði í leikjum mótsins.
Fjórir höfuðpaurar málsins voru úrskurðaðir í fimm ára bann og aðrir fjórir verða að dúsa í skammarkróknum frá níu mánuðum til tveggja ára, eftir því sem Aftonbladet í Svíþjóð greinir frá og vitnar í frétt Dagens Nyheter.
Rússneska landsliðið lék afar illa á mótinu og hafnaði í næst neðsta sæti mótsins, því fimmtánda. Svo slakt var liðið að grunur lék á að maðkur væri í mysunni. Hrundið var af stað rannsókn við heimkomu og var leikmönnunum m.a. gert skylt að fara í lygapróf. Forseti rússneska handknattleikssambandsins, Sergey Shishkarev, sagði að ekki yrði tekið á málum með silkihönskum.
Leikmennirnir tóku þátt í veðmálum á netinu á eigin leiki og eru taldir hafa haft talsvert upp úr krafsinu þar til upp komst um ósköpin.
Íslenska landsliðið tók þátt í Evrópumótinu í Króatíu en lék ekki við rússneska landsliðið.