- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sænskt ólíkindatól tekur aftur fram skóna

Kim Ekdahl Du Rietz fyrir miðri mynd í kappleik með Rhein-Neckar Löwen fyrir nokkrum árum. Guðjón Valur Sigurðsson er Svíanum til hægri handar Gedeon Guardiola á vinstri hönd. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Sænski handknattleiksmaðurinn Kim Ekdahl Du Rietz hefur ákveðið að draga skóna fram úr hillunni og leika með Rhein-Neckar Löwen í úrslitahelgi Evrópudeildarinnar í handknattleik sem fram fer um helgina í Mannheim. Du Rietz er mikið ólíkindatól en hann lagði síðast skóna á hilluna í mars í fyrra.

Du Rietz, sem 31 árs gamall Svíi og skytta góð, lék árum saman með Rhein-Neckar Löwen og var m.a. í sigurliði félagsins í EHF-bikarnum vorið 2013. Hann ákvað að venda kvæði sínu í kross sumarið 2017 og hætti í handknattleik. Lagðist þá ferðlög en dúkkaði upp í herbúðum Rhein-Neckar Löwen vorið 2018 og tók þátt í síðustu leikjum tímabilsins.

Sumarið 2018 samdi Du Rietz við PSG til tveggja ára og gaf aftur kost á sér í sænska landsliðið. Þegar keppni var hætt í frönsku 1. deildinni í mars á síðasta ári sagðist Du Rietz vera hættur. Hélt hann til Hong Kong og settist á skólabekk. Hann hefur æft á laun með Rhein-Neckar Löwen upp á síðkastið með það fyrir augum að taka þátt í úrslitahelginni um helgina.


„Ég hef alltaf verið í góðu sambandi við forráðamenn Rhein-Neckar Löwen. Þegar ég heyrði að mikið væri um meiðsli hjá liðinu þá rann mér blóðið til skyldunnar,“ segir Du Rietz á heimasíðu félagsins. „Ég hef haldið mér í formi en er ekki mikilli leikæfingu. Eftir nokkrar æfingar með strákunum undanfarna daga get ég vonandi hjálpað til,“ segir Du Rietz ennfremur.


Rhein-Neckar Löwen mætir Füchse Berlin í undanúrslitaleik Evrópudeildarinnar á morgun. Magdeburg og Wisla Plock mætast í hinni viðureign undanúrslitanna. Sigurliðin eigast við í úrslitaleik á sunnudaginn.

Ýmir Örn Gíslason leikur með Rhein-Neckar Löwen og Ómar Ingi Magnússon með Magdeburg.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -