- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sætaskipti í KA-heimilinu

Starri Friðriksson skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna í sigri á HK á UMSK-mótinu í morgun. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Stjarnan hafði sætaskipti við KA í Olísdeild karla með sigri á Akureyrarliðinu í KA-heimilinu í kvöld, 32:27, eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 17:16. KA féll þar með niður í áttunda sæti deildarinnar og er með 15 stig. Stjarnan er fluttist hinsvegar að hlið Selfoss með 16 stig eftir 15 leiki. KA-menn eiga einn leik til góða.


Fyrir utan að Stjarnan skoraði tvö fyrstu mörkin í KA-heimilinu í kvöld þá var munurinn aldrei meiri en eitt mark á liðunum allan fyrri hálfleikinn. Stjarnan var lengst af á undan að skora í leiknum sem var hraður og skemmtilegur.


Gestirnir úr Garðabæ tóku hinsvegar afgerandi forystu í byrjun síðari hállfeiks. Munurinn var þrjú til fjögur mörk framan af og var orðinn að fimm mörkum þegar á leið. Stjarnan var mun sterkari. Varnarleikurinn betri og markvarslan frábær. Sóknarleikurinn gekk glimrandi vel sem fyrr.

Hornamaðurinn Starri Friðriksson fór mikinn og skoraði níu mörk í 11 skotum. Ekkert marka sinna skoraði Starri úr vítakasti. Adam Thorstensen varði vel í markinu, alls 14 skot, en hann stóð í marki Stjörnunnar í síðari hálfleik.

Kollegi hans í marki KA, Nicolas Satchwell náði sér hinsvegar ekki á strik enda nýlega sloppinn úr sóttkví eftir að hafa tekið þátt í landsleikjum með færeyska landsliðinu.

Adam Thorstensen fór á kostum í marki Stjörnunnar í kvöld. Hér er hann að verja frá Jóhanni Geir Sævarssyni hornamanni KA. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Árni Bragi Eyjólfsson var atkvæðamestur hjá KA eins og stundum áður en annars dreifðist markaskorun KA-manna mikið á milli leikmanna.


Mörk KA: Árni Bragi Eyjólfsson 9/4, Áki Egilsnes 4, Patrekur Stefánsson 4, Jón Heiðar Sigurðsson 4, Einar Birgir Stefánsson 4, Andri Snær Stefánsson 1, Allan Norðberg 1.
Varin skot: Nicholas Satchwell 8, 21,1%.

Mörk Stjörnunnar: Starri Friðriksson 9, Björgvin Þór Hólmgeirsson 6, Tandri Már Konráðsson 3, Leó Snær Pétursson 3/3, Hafþór Már Vignisson 3, Sverrir Eyjólfsson 3, Hjálmtýr Alfreðsson 2, Pétur Árni Hauksson 1, Brynjar Hólm Grétarsson 1, Dagur Gautason 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 14, 41,2% – Sigurður Dan Óskarsson 2, 22,2%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan í Olísdeild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -