Afturelding og Stjarnan höfðu sætaskipti á botni Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld þegar Afturelding lagði Stjörnuna öðru sinni á leiktíðinni. Að þessu sinni unnu Mosfellingar liðsmenn Stjörnunnar, 23:22, í Mýrinni í Garðabæ. Afturelding hefur þar með fjögur stig í sjöunda og næst síðasta sæti en Stjarnan situr á botninum á nýjan leik með þrjú stig.
Að loknum fyrri hálfleik var Afturelding marki yfir, 14:13. Liðið náði mest þriggja marka forystu, 17:14, eftir um tíu mínútur í síðari hálfleik. Stjarnan gaf ekki sinn hlut eftir baráttulaust og minnkaði muninn í eitt mark en náði aldrei frumkvæðinu af Aftureldingarliðinu. Áfram var eins til tveggja marka munur, Aftureldingu í vil, allt til loka.
Stefanía Theodórsdóttir skoraði 22. mark Stjörnunnar þegar mínúta var til leiksloka, 22:23. Bæði lið fengu tækifæri til þess að skora á síðustu mínútu. Allt kom fyrir ekki. Saga Sif Gísladóttir varði í blálokin skot frá Helenu Rut Örvarsdóttur og sá til þess að Mosfellingar fóru með stigin tvö í farteskinu heim.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 8/5, Anna Karen Hansdóttir 7, Ivana Jorna Meincke 3, Helena Rut Örvarsdóttir 2, Stefanía Theodórsdóttir 1, Embla Steindórsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 11, 36,7% – Elísabet Millý Elíasardóttir 0.
Mörk Aftureldingar: Katrín Helga Davíðsdóttir 6, Ragnhildur Hjartardóttir 5, Susan Ines Gamboa 4, Hildur Lilja Jónsdóttir 4/1, Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir 2, Lovísa Líf Helenudóttir 1, Anna Katrín Bjarkadóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 12, 35,3%.