- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sætir sigrar og súr töp í þýsku bikarkeppninni

Elliði Snær Viðarsson línumaður Gummersbach. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Gummersbach, SC Magdeburg og Rhein-Neckar Löwen, sem öll hafa íslenska handknattleiksmenn innan sinna vébanda, tryggðu sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar þegar fjórar viðureignir 16-liða úrslita fór fram.


Melsungen og Bergischer HC, sem Íslendingar eru einnig liðsmenn hjá, féllu úr leik. Eins komst Lemgo áfram eftir sigur á Elbflorenz í Dresden, 32:27.

Peyjarnir voru í stuði

Það var heldur betur glatt á hjalla hjá lærisveinum Guðjóns Vals Sigurðssonar eftir leikinn við ASV Hamm-Westfalen í Westpress-Aren í kvöld eftir sigur á heimaliðinu, 34:31. Eyjapeyjarnir Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson léku við hvern sinn fingur. Elliði Snær skoraði sjö mörk í níu skotum og Hákon Daði skoraði sex mörk og missti ekki marks á skoti. Elliða Snæ var einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur. Það er nokkuð sem hann kippir sér ekki lengur upp við.

Gísli og Ómar komu að 25 mörkum

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon léku að vanda á als oddi er Magdeburg vann Bergischer HC í Getec-Arena í Magdeburg, 43:31. Þeir skoruðu sex mörk hvor. Gísli Þorgeir átti níu stoðsendingar og Ómar Ingi fjórar. Komu þeir félagar beint eða óbeint að 25 mörkum Magdeburg-liðsins.


Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Bergischer HC.

Ýmir sótti sigur til Melsungen

Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein-Neckar Löwen fögnuðu sigri á MT Melsungen í Rothenbach-Halle, 36:28. Ýmir Örn skoraði ekki mark í leiknum en tók vel á því í vörninni og var einu sinni sendur í tveggja mínútna kælingu.


Elvar Örn Jónsson skoraði sex mörk í átta skotum og átti eina stoðsendingu fyrir Melsungenliðið. Einnig var Elvari Erni vísað einu sinni af leikvelli í tvær mínútur. Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö mörk úr fjórum skotum fyrir Melsungen.

Síðustu leikir annað kvöld

16-liða úrslitum bikarkeppninnar lýkur annað kvöld með fjórum leikjum. Teitur Örn Einarsson og samherjar í Flensburg-Handewitt fá HSV Hamburg í heimsókn og Heiðmar Felixson fer með sveit sína í Hannover-Burgdorf í heimsókn til 2. deildarliðsins Dessau-Roßlauer HV 06. Bietigheim fær að glíma við THW Kiel og TV Großwallstadt og HSG Wetzlar eigast við.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -