Það var glatt á hjalla hjá Íslendingahópnum hjá norska úrvalsdeildarliðinu Volda í dag þegar liðið vann Tertnes, 31:29, í Åsane Arena, norðan Björgvinjar, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik.
Volda sem er nýliði í deildinni komst þar með upp úr neðsta sæti deildarinnar sem er góður áfangi fyrir liðið í þessari sterku deild. Liðið hefur fjögur stig en verið nærri stigi eða stigum í fleiri leikjum.
Sigur Volda var afar sanngjarn en liðið var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:16.
Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Volda og Rakel Sara Elvarsdóttir fjögur. Katrín Tinna Jensdóttir fór á kostum í vörninni og var með átta löglegar stöðvanir, varði tvö skot i vörninni og vann boltann tvisvar auk þess að vera með eina stoðsendingu.
Halldór Stefán Haraldsson er þjálfari Volda og Hilmar Guðlaugsson er honum til halds og trausts eins og fyrri daginn.