- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sagan skrifuð hjá KA/Þór

Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

KA/Þór vann í dag sinn fyrst stóra titil í meistaraflokki kvenna þegar liðið kjöldró þrefalda meistara Fram, 30:23, í Meistarakeppni HSÍ í handknattleik. Óhætt er að segja að liðið hafi skrifað kafla í sögu sína með sigrinum, sex mánuðum eftir að það steinlá fyrir Fram í úrslitum Coca Cola bikarsins í Laugardalshöll. Norðanliðið var með tögl og hagldir frá upphafi til enda og vann sanngjarnan og afar öruggan sigur á Fram sem virðist eiga nokkuð í land ennþá enda leiktíðin rétt að byrja.

Sólveig Lára Kristjánsdóttir mætt til leiks eftir barnsburð. Mynd/HSÍ


Fram-liðið byrjaði leikinn illa. Sóknarleikur liðsins var handahófskendur og varnarleikurinn hriplekur gegn grimmum leikmönnum KA/Þórs sem mættu afar ákveðnir til leiks strax í upphafi. Liðið skartaði m.a. landsliðskonunni Rut Arnfjörð Jónsdóttur sem í dag lék sinn fyrsta leik með íslensku félagsliði í 12 ár.

Hulda Bryndís Tryggvadóttir, leikmaður KA/Þórs sækir að vörn Fram. Mynd/HSÍ


Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var forskot KA/Þórs orðið fimm mörk, 9:4. Stefán Arnarsson hafði þá þegar tekið leikhlé. Í stöðunni 10:4 skipti Stefán um gír og fór að leika með sjö menn í sókn. Það bar strax tilætluð áhrif með tveimur mörkum í röð, staðan 10:6. Breytingin dugði skammt og Fram-liðið var sjö mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 17:10.


Flest virtist fara í skrúfuna hjá leikmönnum KA/Þórs á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Liðið skoraði aðeins tvö mörk fyrstu 13 mínúturnar. Fram-liðið var komið með blóð á tennurnar og saxaði smátt og smátt á forskotið þangað til munurinn var orðinn þrjú mörk, 19:16. Þá tók Andri Snær Stefánsson, sem tók við KA/Þórs-liðinu í sumar, leikhlé og endurskipulagði sinn leik. Ró komst á leik liðsins á ný og forskotið fór upp í sex mörk, 22:16. Tíu mínútum fyrir leiksloka var munurinn sjö mörk, 24:17. Það gekk hvorki né rak hjá Fram-liðinu og staðan versnaði bara fram til leiksloka.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir sækir að vörn Fram. Hún lék í dag sinn fyrsta félagsliðsleik á Íslandi í 12 ár. Mynd/HSÍ


Varnarleikur Fram var langt frá að vera viðundandi fyrir liðið eins og það hefur leikið undanfarin ár. Sóknarleikurinn var mistækur en fyrst og fremst var það varnarleikurinn sem varð þess valdandi að liðið steinlá. Liðið saknar lykilmanna frá síðustu leiktíð en það afsakar ekki þann leik sem liðið sýndi lengst af að þessu sinni.

KA/Þórs-liðið kom skemmtilega á óvart með léttum og skemmtilegum sóknarleik og prýðilegum varnarleik auk þess sem Matea Lonac átti ágætan leik í markinu. Liðið geislaði af sjálfstrausti frá upphafi til enda sem var lykillinn að frábærum sigri. Ef frammistaðan í dag var forsmekkur að því sem koma skal er lið KA/Þórs til alls líklegt.


Martha Hermannsdóttir skoraði sjö mörk fyrir KA/Þór og var markhæst. Rut var næst með fimm mörk. Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði sjö mörk fyrir Fram og var þeirra markahæst. Perla Ruth Albertsdóttir var næst með fjögur mörk.

Martha Hermannsdóttir, fyrirliði KA/Þórs með meistarakeppnisbikarinn. Mynd/HSÍ

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -