- Auglýsing -
- Auglýsing -

Saknar ekki gamla hlutverksins

Róbert Gunnarsson t.v. og Snorri Steinn Guðjónsson, herbergisfélagar árum saman hjá landsliðinu, samherjar og vinir, fagna bronsinu á EM 2010 í Austurríki. Mynd/Kristinn Ingvarsson
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Róbert Gunnarsson er einn þeirra sem stóð í stafni íslenska landsliðsins í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking fyrir 12 árum og bronsverðlaun á EM í Austurríki tveimur árum síðar. Ferill Róberts með landsliðinu stóð yfir í nærri tvo áratugi en alls tók hann þátt í þrennum Ólympíuleikum, fimm heimsmeistaramótum auk sjö Evrópumóta. Landsleikirnir 276, mörkin 777.

Síðustu árin hefur lítið farið fyrir Róberti en hann lagði skóna upp á hillu fyrir rúmum tveimur árum. Róbert býr í Árósum ásamt eiginkonu sinni, Svölu Sigurðardóttur lækni og doktorsnema  og þremur börnum, 9, 12 og 14 ára en elsta dóttir þeirra, 23 ára, er heima á Íslandi.  Samhliða doktorsnáminu vinnur Svala í hlutastarfi sem læknir.

Róbert tók við þjálfun 19 ára liðs Århus Håndbold í vor auk þess sem hann er þjálfari hjá íþróttaakademíu við grunn- og framhaldsskóla í borginni en hún er rekin í samstarfi við félagið.

Hefur í mörg horn að líta

„Fyrsta maí tók ég við 19 ára liði Århus, þá í miðju covid. Það er mjög spennandi verkefni. Þessu til viðbótar er ég þjálfari í akademíu á íþróttabraut sem rekin er hér í borginni þar sem nemendur geta stundað ákveðna íþrótt sem hluta af námi sínu frá áttunda bekk í grunnskóla og þangað til að þeir ljúka framhaldsskóla. Þar kenni ég tvo daga í viku og er í raun hluti af starfi mínu með 19 ára liðið. Til viðbótar er ég einn aðstoðarþjálfara karlaliðsins,“ sagði Róbert þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans á dögunum.

„Einnig hef ég rekið vinnustofu með sálfræðingi við ráðgjafarstörf fyrir íþróttafélög og fleiri. Meðal annars höfum við unnið með Árósarliðinu undanfarin tvö ár við að styrkja leikmenn liðsins andlega að takast á við margskonar pressu og álag sem fylgir sportinu og reyndar lífinu yfir höfuð. Einnig höfum við komið inn í fyrirtæki með ráðgjöf og aðstoð við að bæta starfsanda og umhverfi,“ segir Róbert sem líkar vel að búa í Danmörku.

Mjög tengdur Árósum

Róbert lék síðast með landsliðinu 2017 en hann lagði keppnisskóna á hilluna árið eftir. Tvö síðustu keppnistímabilin lék hann með Århus Håndbold þar sem hann byrjaði atvinnumannaferilinn í byrjun aldarinnar á óhefðbundnari  hátt en margir aðrir. Róbert hafði vakið athygli hér heima, bæði sem handknattleiksmaður hjá Fram og knattspyrnumarkvörður hjá Fylki áður en hann flutti til Danmerkur.  Hann elti þáverandi kærustu og núverandi eiginkonu til Árósa þar sem hún lagði stund á læknisnám. Róbert fékk að æfa með Árósarliðinu án samnings en sló fljótlega í gegn sem varð þess valdandi að hann ílengdist hjá félaginu. Róbert varð m.a. markakóngur dönsku úrvalsdeildarinnar eitt tímabilið og var afar vinsæll á meðal stuðningsmanna liðsins.

Árið 2005 samdi Róbert við Gummersbach og lék með liðinu í fimm ár, síðan tóku við tvö ár hjá Rhein-Neckar Löwen og þá fjögur ár með stórliði PSG í Parísarborg áður en leikmannsferlinum lauk í Árósum eins og fyrr sagði.

Orðinn lærisveinn lærimeistara

Til viðbótar við að þjálfa unglinga á ýmsum aldri þá hefur Róbert einnig hlutverk í þjálfarateymi úrvalsdeildarliðsins Århus Håndbold. Tvisvar til þrisvar í viku er hann með séræfingar fyrir tvo til þrjá leikmenn liðsins við mjög afmörkuð atriði. Þess utan er hann með ungan línumann á séræfingum að minnsta kosti einu sinni í viku.

„Ég er orðinn lærisveinn hjá mínum gamla lærimeistara Erik Veje Rasmussen,“ sagði Róbert léttur í bragði en Rassmussen hefur þjálfað Árósarliðið í háa herrans tíð.

Er enn að máta sig í hlutverkið

„Þannig að nú er svo komið að það sem byrjaði sem nokkrir tíma á viku við þjálfun barna er komið út í að fylla út í stóran hluta vinnutímans yfir vikuna þegar allt er talið saman.  Mér finnst þetta mjög skemmtilegt. Þetta er alls ekki það sama og þjálfa meistaraflokk. Ég er að takast á við og máta mig inn í þetta nýja hlutverk. Enn sem komið kann ég vel við þetta.“

Róbert segir allt óráðið hvort og þá hvenær fjölskyldan flytur heim til Íslands. „Við tökum eitt ár í einu og sjáum til hvað verður. Annars er ekki mikill munur á að búa heima á Íslandi eða í Árósum þar sem við erum, það er helst veðrið sem er betra hér ytra.

Betra að verða smá lélegur

Róbert segist ekkert sakna þess að vera ekki í hlutverki leikmannsins á handboltavellinum.  „Einu sinni var sagt að maður ætti að hætta áður en maður yrði lélegur. Ég er ekki sammála þessu. Mín skoðun er sú að betra sé að verða smá lélegur áður en þú hættir því þá langar mann ekkert að halda áfram eða fer að ala með sér þann draum að mæta til leiks aftur. Ég náði að verða smá lélegur áður en ég hætti. Að minnsta kosti hætti ég ekki á toppnum. Þar af leiðandi sakna ég þess ekki að vera ekki lengur í hringiðunni á leikvellinum.  Ég var sáttur þegar ég hætti,“ sagði Róbert Gunnarsson, handknattleiksþjálfari og fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -