- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Sálfræðilega sterkt að stíga yfir þennan þröskuld

- Auglýsing -

„Heilsan er góð, helst þótt mig vanti meiri svefn. Maður var hátt uppi eftir mikinn spennuleik og gekk illa að sofna. Hvað sem því líður þá er ég glaður í dag,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður þegar handbolti.is hitti hann í gær, daginn eftir sigurleikinn á Ungverjum í síðustu umferð riðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik.

Supu hveljur

Gísli Þorgeir var í sífelldum árásum á vörn Ungverja frá upphafi til enda leiksins í fyrrakvöld sem íslenska liðið vann, 24:23. Þrátt fyrir að standa í stórræðum, jafnvel svo að margir áhorfendur supu hveljur við að sjá atganginn, þá bar Gísli sig vel í gær. Keppnismaðurinn þverneitaði að vera lurkum laminn.

„Ég komst þokkalega vel frá leiknum og finn ekki fyrir miklu, það er alltaf eitthvað smotterí en ekkert sem plagar mig sérstaklega,“ sagði Gísli Þorgeir og sötraði á kaffibolla sínum af yfirvegun.

Smellið á myndir og sjáið þær stærri.

Ætluðum að standast prófið

„Það var alveg klárt markmið okkar að vinna leikinn og við lögðum allt í sölurnar. Við ætluðum að standast prófið sem í viðureigninni fólst. Þetta var ákveðinn sigur fyrir okkur sem lið. Þar með stöndum við vel að vígi þegar milliriðlakeppnin hefst, nokkuð sem við ætluðum okkur,“ sagði Gísli og átti við að fara með fullt hús stiga inn í milliriðlakeppnina sem hefst á föstudaginn með leik við Króatíu.

Sálfræðilega sterkt

Hann sagði það hafa verið sálfræðilega sterkt fyrir íslenska liðið að vinna leikinn; „Ekki síst vegna þess að það bjátaði margt á í leiknum; Elvar Örn meiddist og Ýmir Örn fékk rautt spjald snemma í síðari hálfleik. Okkur tókst að leysa þær stöður sem komu upp alveg ótrúlega vel.

Sannarlega má ýmislegt laga en einnig gerðum við margt gott. Það förum við betur yfir. En það var sálfræðilega sterkt að stíga yfir þennan þröskuld og vinna jafnan leik við Ungverja,“ sagði Gísli Þorgeir og bætti við að hann væri afar spenntur fyrir leikjunum fjórum sem fyrir dyrum standa í milliriðlakeppni EM.

Ná þrusu frammistöðu

„Við þurfum fyrst og fremst að ná þrusu frammistöðu gegn liðunum í fjórum í milliriðlakeppninni. Ef okkur tekst að hitta á daginn okkar er ég viss um að við getum unnið þau lið eins og önnur,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -