- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sandra í sigurliði en Díana Dögg tapaði – markvarslan sveik

Sandra Erlingsdóttir. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Sandra Erlingsdóttir og samherjar hennar í Metzingen halda áfram að gera það gott í þýsku 1.deildinni í handknattleik. Í kvöld vann Metzingenliðið Leverkusen með fimm marka mun á heimavelli, 29:24. Á sama tíma töpuðu Díana Dögg Magnúsdóttir og hennar félagar í BSV Sachsen Zwickau með 14 marka mun á heimavelli fyrir næsta efsta liði deildarinnar, Thüringer, 33:19. Eins og oft áður á keppnistímabilinu sveik markvarslan algjörlega hjá BSV Sachsen Zwickau-liðinu.


Sandra skoraði eitt mark í þremur skotum, stal boltanum einu sinni gaf sex stoðsendingar í sigurleiknum góða á Leverkusen, 29:24. Metzingen var þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12. Liðið er í fimmta sæti og má vel við una með 20 stig.

Var sú besta

Díana Dögg var valin besti leikmaður BSV Sachsen Zwickau í tapleiknum gegn Thüringer. Hún skoraði fjögur mörk, átti þrjár stoðsendingar, skapaði eitt færi og vann tvö vítaköst auk þess að krækja boltanum einu sinni af andstæðingi, vann andstæðing af leikvelli og tók eitt frákast. Díana Dögg mátti bíta í það súra epli að vera vísað einu sinni af leikvelli.

Díana Dögg Magnúsdóttir. Mynd/BSV Sachsen Zwickau

Ellefu mörkum undir í hálfleik

Strax að loknum fyrri hálfleik var ljóst hvert stefndi í Sporthalle Neuplanitz í Zwickau þegar leikmenn Thüringer voru komnir með 11 marka forskot, 19:8. Þjálfari BSV Sachsen Zwickau tefldi fram þremur markvörðum í leiknum en það hjálpaði ekkert upp á sakirnar. Ljóst er að hressa verður upp á markvörsluna fyrir næstu leiktíð.


BSV Sachsen Zwickau er í 11. sæti af 14 liðum deildarinnar með 10 stig eftir 17 leiki. Níu umferðir eru eftir. Bietigheim er sem fyrr efst með 34 stig eftir 17 leiki. Thüringer hefur 31 stig og Dortmund 25 stig í þriðja sæti og á leik inni gegn Oldenburg sem fram fer á morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -