Sandra Erlingsdóttir og samherjar hennar í TuS Metzingen komust í kvöld í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar í handknattleik. TuS Metzingen vann þá TuS Lintfort með 18 marka mun í Sporthalle Eyller Strasse, heimavelli Lintford, 48:30, í átta liða úrslitum.
Í miklum markaleik voru Sandra og félagar með níu marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 25:16.
Úrslitahelgi þýsku bikarkeppninnar í kvennaflokki verður helgina 1. og 2. apríl í Porsche-Arena, hinni glæsilegu íþróttahöll í Stuttgart.
Auk Metzingen er Oldenburg komið í undanúrslit en tvær síðustu viðureignir átta liða úrslitanna fara fram á laugardaginn og fari þeir leikir samkvæmt gömlu góðu bókinni má reikna með að Bietiegheim og Borussia Dortmund eigi einnig sæti í undanúslitum bikarsins.
Sandra skoraði fjögur mörk í fimm tilraunum í sigurleiknum góða í kvöld.