- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sandra til eins sterkasta liðs Þýskalands

Sandra Erlingsdóttir skrifaði undir þriggja ára samning við TUS Metzingen í þýsku 1. deildinni eftir áramót. Hún er ein af mörgum handknattleikskonum sem skipta um lið í sumar. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

Landsliðskonan í handknattleik, Sandra Erlingsdóttir, hefur samið við þýsku 1. deildarliðið TUS Metzingen í suðurhluta Þýskalands til þriggja ára. Samingurinn tekur gildi í sumar. Hún verður fyrsta íslenska handknattleikskonan til þess að leika með félaginu. TUS Metzingen er eitt sterkasta handknattleikslið Þýskaland og er um þessar mundir í þriðja sæti þýsku 1. deildarinnar, næst á eftir Dortmund og Bietigheim.


„Ég er tilbúin í næsta skref á mínum ferli. Metzingen er stórlið í þýsku deildinni og meðal annars með nokkra landsliðsmenn í sínu liði,“ sagði Sandra við handbolta.is í morgun þegar samningurinn var orðinn opinber.

Krefjandi og skemmtilegt

„Liðið er byggt upp á ungum efnilegum leikmönnum með blöndu af reynslumiklum eldri leikmönnum. Þetta verður því mjög krefjandi en skemmtilegt á sama tíma. Ekki skemmir heldur fyrir að liðið er 40 mínútur frá Balingen þar sem Daníel [Þór Ingason landsliðsmaður] spilar og því getum við búið saman í fyrsta skiptið síðan við byrjuðum saman,“ sagði Sandra sem er afar spennt fyrir að flytja til Þýskalands eftir að hafa átt tvö góð tímabil hjá EH Aalborg þar sem hún hefur tekið miklum framförum.

Handboltafjölskylda

Sandra, sem er úr Vestmannaeyjum og dóttir handknattleikshjónanna Erlings Richardssonar og Vigdísar Sigurðardóttur. Sandra hefur síðustu tvö árin leikið með EH Alaborg í dönsku 1. deildinni og gert það gott. Hún hefur áður leikið með ÍBV, Val og Füchse Berlin í Þýskalandi á táningsaldri.

Metzingen var draumaliðið

„Ég var mjög opin fyrir því að vera áfram í Danmörku. Metzingen var í raun eina liðið í Þýskalandi sem ég var opin fyrir og var í raun mitt draumalið því var erfitt að segja nei þegar það kom upp á borðið,“ sagði Sandra sem flytur til Þýskalands í sumar um leið og keppnistímabilið verður á enda í Danmörku.
Sandra segir að talsverður munur sé á handknattleiknum í Danmörk og í Þýskalandi.

Öðruvísi leikur

„Danskur kvennahandbolti er mjög hraður á meðan í Þýskalandi er meira um stærri leikmenn og smá svona „þyngri“ handbolti sem verður því ákveðin áskorun fyrir mig. En það getur einnig verið mikill kostur fyrir mig að vera minni og sneggri. Fyrsta deildin í Danmörku er mjög flott deild en það var komin tími á að ég tæki næsta skref á ferlinum.”


Þú ert alveg tilbúin að taka stökkið?

„Mér finnst það alveg klárlega. Ég er búin að eiga tvö mjög góð tímabil hér í 1. deildinni í Danmörku, sem var frábær stökkpallur fyrir mig. Ég tel að þetta sé hárrétti tíminn fyrir mig að taka næsta skref enn hærra. Það var mikið svekkelsi að komast ekki upp í úrvalsdeildina fyrra og því er ég enn tilbúnari þetta árið fyrir næsta skref,“ segir Sandra sem hefur tekið miklum framförum á tveimur árum hjá EH Aalborg, jafnt í vörn sem sókn.

Var frábært stökk

„Það finnst mér. Bara það að búa ein í útlöndum, læra nýtt tungumál og standa á eigin fótum hefur kennt mér margt. Handboltalega var þetta frábært stökk. Eins og ég sagði áðan þá er danski boltinn mjög hraður, aggressívar varnir og mikið „power“ og mikið hlaupið og það hefur hentað alveg rosalega vel. Ég hef æft vel hvort sem það sé inn í styrktarsalnum, á hlaupabrautinni eða inn í handboltasal. Þjálfarinn minn er alveg frábær og hefur hjálpað mér mikið. Einnnig eru allar stelpurnar í liðinu með mikinn metnað sem heldur manni vel á tánum.“

Talar þýsku reiprennandi

Sandra nýtur þess við komuna til Þýskalands að kunna þýsku og að hafa búið í Þýskalandi og Austurríki þegar hún var yngri. Þjóðverjar leggja mikla áherslu á að öll samskipti innan liðanna og í leikjum fari fram á þýsku. Þýskan vefst ekki fyrir Söndru fremur en margt annað.


„Stærsti plúsinn er klárlega sá að kunna nú þegar tungumálið og vera með háskólagráðu í tungumálinu í þokkabót. Fyrstu mánuðurnir í nýju liði og nýju tungumáli geta verið mjög krefjandi því er það ansi mikill léttir að geta mætt á fyrstu æfinguna og skilja allt og hafa búið áður í Þýskalandi og þekkja þar af leiðandi þýsku menninguna,“ sagði Sandra Erlingsdóttir handknattleikskona sem skrifað hefur undir þriggja ára samning við þýska handknattleiksliðið TUS Metzingen.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -