- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sannfærandi fyrsta skref hjá HK-ingum

Díana Kristín Sigmarsdóttir og samherjar í HK unnu öruggan sigur á Fjölni-Fylki í kvöld. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

HK er komið að minnsta kosti hálfa leið í úrslit umspilsins um sæti í Olísdeild kvenna eftir öruggan 12 marka sigur á Fjölni-Fylki, 27:15, í fyrsta leik liðanna af mögulega þremur í undanúrslitum umspilsins í Kórnum í kvöld. HK var fimm mörkum yfir í hálfleik. Liðin mætast á ný í Dalhúsum á laugardaginn. Með sigri í þeim leik kemst HK í úrslit um sæti í Olísdeild á næstu leiktíð og mætir annað hvort Gróttu eða ÍR.


Leikmenn Fjölnis-Fylkis héldu í við HK fyrstu 20 mínútur leiksins í Kórnum í kvöld. Treglega gekk að skora framan af og eftir stundarfjórðung hafði hvort lið skorað þrjú mörk. HK náði þá tveimur mörkum í röð og tveggja marka forskoti sem liðið bætti jafnt og þétt við þar til fyrri hálfleikur var úti. Selma Þóra Jóhannsdóttir stóð vaktina í markinu og vökulum augum og stöðvaði þau skot sem komu að marki HK.

Á upphafsmínútum síðari hálfleiks gerði HK-liðið endanlega út um leikinn. Liðið náði 10 marka forskoti, 18:8, eftir tíu mínútur. Þar með var sigurinn í höfn.


Vitað var fyrirfram að getumunurinn væri mikill enda lék HK í Olísdeildinni í vetur en Fjölnir-Fylkir var fyrir neðan miðja Grill 66-deildina.

Sóknarleikurinn reyndist Fjölnis-Fylkisliðinu erfiður og varð þess valdandi að HK fékk nokkur mörk á silfurfati. Varnarleikurinn var góður og markvarslan fín hjá Þyrí Erlu Sigurðarsdóttur og Oddnýju Björgu Stefánsdóttur til sóma. Ástæða er til hrósa liði Fjölnis-Fylkis fyrir að gefast aldrei upp þótt róðurinn væri þungur.


HK-liðið var ekki sannfærandi í fyrri hálfleik. Þegar það hafði hrist af sér slenið í síðari hálfleik var allt annað sjá til þess.


Mörk HK: Tinna Sól Björgvinsdóttir 6, Berglind Þorsteinsdóttir 4, Kristín Guðmundsdóttir 3, Karen Kristinsdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 2, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 2, Alexandra Lóf Arnarsdóttir 2, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 2, Díana Kristín Sigmarsdóttir 1, Sara Katrín Gunnarsdóttir 1, Þóra María Sigurjónsdóttir 1, Heiðrún Berg Sverrisdóttir 1.
Mörk Fjölnis-Fylkis: Kolbrún Anna Garðarsdóttir 9, Anna Karen Jónsdóttir 3, Katrín Erla Kjartansdóttir 1, Kristín Lísa Friðriksdóttir 1, Ada Kozicka 1.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -